Bolungavík: 120 m langur grjótgarður

Grjótgarðurinn er kominn vel á veg. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í Bolungavík er unnið að gerð 120 metra langs grjótgarðs út frá Grundargarði í Bolungavíkurhöfn. Alls verða 18.000 rúmmetrar af grjóti og kjarna settir út. Verkinu á að vera lokið fyrir septemberlok. Það er Þotan ehf sem vinnur verkið sem boðið var út og bárust tvö tilboð. Þotan bauð 105,8 m.kr. og Grjótverk ehf á Ísafirði 108,4 m.kr. Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar var 86,9 m.kr.

Finnbogi Bjarnason, tæknifræðingur hjá Bolungavíkurkaupstað segir tilganginn með framkvæmdinni vera þann að fanga sand sem berst inn í innsiglingarrennuna í höfnina og sest þar. Vegna sandburðarins hefur þurft að dýpka rennuna á 3 – 5 ára fresti með ærnum tilkostnaði. Ríkið kostar 75% af framkvæmdakostnaðinum.

Að sögn Finnboga má vænta þess að fyrir innan sandfangarann verði til landfylling allt að 30 þúsund fermetrar. Því mætti hraða með því að fá sand sem verður dælt upp í Skutulsfirði í haust og eru viðræður hafnar um möguleika á því. Uppi eru hugmyndir um að nýta svæðið undir hafnsækna starfsemi segir Finnbogi.

DEILA