Bolungavík: 10 leiguíbúðir tilbúnar um mánaðamótin

Horft út yfir höfnina. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Í Bolungavík er verið að breyta verslunar- og skrifstofuhúsnæði í íbúðir. Það er húsnæði Einars Guðfinnssonar hf við Vitastíg, sem var í eigu Bolungavíkurkaupstaðar, sem gengur í gegnum mikla endurnýjun. Þegar hefur tveimur hæðum við Aðalstræti verið breytt í sex íbúðir og nú er verið að breyta húsnæðinu við Vitastíg og verða þar 14 leiguíbúðir.

Á annarri hæðinni við Vitastíg verða 10 íbúðir og verða þær tilbúnar til íbúðar um næstu mánaðamót. Fjórar íbúðar verða á 1. hæð og er unnið að framkvæmdum við þær en þær verða tilbúnar síðar.

Íbúðirnar sem eru á lokastigi er fjórar þriggja herbergja og sex tveggja herbergja og eru frá 55 – 80 fermetrar að stærð. Svalir eru með hverri íbúð og þær eru afhentar með ísskáp, þvottavél og þurrkara.

Það er Skýlir ehf sem er framkvæmdaaðili. Hans Þórðarson, framkvæmdastjóri Skýlis segir að það séu nýmæli að breyta þegar byggðu húsnæði í íbúðir en til þessa hafi frumkvæði ríkisins og Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar beinst að nýbyggingum. Með þessari leið í Bolungavík vinnist margt. Nýtt fullbúið íbúðarhúsnæði fáist á lægra verði pr fermetra en nemur byggingarkostnaði á nýju íbúðarhúsnæði og leigjendur njóti þess í leiguverðinu og sveitarfélagið fær að leggja fram sinn hluta af framkvæmdakostnaði með eignarhlut sínum í húsnæðinu. Þá bendur Hans á að það sé umhverfisvænt að fjölga íbúðum með þessum hætti, þar sem kolefnisspor við nýbyggingu sparast. Hans segir að samstarfið við bæjarfélagið og HMS hafi gengið ákaflega vel.

Katrín Pálsdóttir, starfandi bæjarstjóri segir að þegar séu komnar nokkuð margar umsóknir um íbúðirnar og stefnir í að þær verði fleiri en íbúðirnar í boði. Umsóknarfrestur rennur út á morgun, 22. júlí. Það verður húsnæðisamvinnufélag sem fer með eignarhald á íbúðunum og úthlutar þeim. Katrín vildi nota tækifærið og auglýsa eftir hugmyndum að nafni fyrir félagið.

Katrín Pálsdóttir og Hans Þórðarson.
Horft eftir Vitastígnum.
Eldhús.
Útsýni að höfninni frá endaíbúðinni.
Útsýni í suðurátt.
eldhús í tveggja herbergja íbúð.
Íbúð 202.

DEILA