Bíldudalur: safnið melódíur minninganna opið

Safnið Melódíur minninganna á Bíldudal er opið í sumar sem fyrr. Melódíur minninganna er tónlistarsafn Jóns Kr. Ólafssonar á heimili hans að Reynimel á Bíldudal.

Í safninu eru margar gersemar íslenskrar tónlistarsögu. Hér má finna skemmtilega muni sem tengjast mörgum af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar, s.s. Hauki Mortens, Ellý og Vilhjálmi og Ingimar Eydal. 

Jón hefur safnað margvíslegum hlutum sem tendir eru tónlist svo sem hljóðfæri, plötur, föt og fleira. Hvítur jakki sem var í eigu Ragnars Bjarnasonar er þar að finna og annar sem Haukur Morthens átti.

Jón Kr. Ólafsson á sjálfur langan feril að baki sem söngvari. Hann var í hljómsveitinni Facon á Bíldudal fyrir 1970 sem meðal annars gaf út sívinsæla hljómplötu.  Hann söng í Reykjavík um árabil meðal annars á Hótel Sögu og Hótel Borg.  Það var svo árið 1983 sem SG-hljómplötur gáfu út stóra plötu með Jóni Kr. þar sem hann syngur kunn einsöngslög við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar.

Á plötuumslaginu skrifaði Svavar Gests þessa umsögn.

„Af þeim 250 hljómplötum sem ég hefi gefið út á tæpum 20 árum er mér sérstaklega eftirminnileg fjögurra laga plata frá árinu 1969 þar sem hljómsveitin Facon á Bíldudal flutti fjögur lög. Hinn mikli áhugi söngvara hljómsveitarinnar fyrir því að gera allt eins vel og framast var mögulegt hreif mig, því hér var um áhugamannahljómsveit að ræða þar sem að hvorki hljóðfæraleikarar eða söngvarar höfðu hlotið menntun á sviði tónlistarinnar. Söngvarinn heitir Jón Kr. Ólafsson. Við urðum kunningjar upp úr þessu samstarfi og hefi ég síðan þá heyrt Jón syngja mörg falleg íslensk einsöngslög og gera þeim frábær skil. Nokkrum þessara laga hefur nú verið safnað saman af hljóðritunum sem til voru og eru þau hér í heild á hljómplötu ásamt tveimur lögum af fyrrgreindri plötu Facon. Mér þykir vænt um að hafa átt aðild að útgáfu plötunnar.“

Þrívegir hefur haldið Jón tónleika í Kaupmannahöfn fyrst 2014, aftur 2017 og svo á þessu ári. Jón hefur gefið út tvo geisladiska. Annar diskurinn hefur að geyma einsöngslög sem Jón syngur og Ingimar Oddsson syngur vinsæl dægurlög á hinum.

DEILA