Bíldudalur: nýtt deiliskipulag með 56 íbúðum

Skipulags- og umhverfisráð  Vesturbyggðar hefur fyrir sitt leyti samþykkt tillögu að deiliskipulagi íbúðabyggðar í landi Hóls, Bíldudal. Í deiliskipulaginu eru skilgreindar 56 íbúðir, 24 einbýli, 6 parhús, 4 raðhúsum og einu fjölbýli fyrir 6 íbúðir. Gert er ráð fyrir blágrænum ofanvatnslausnum á bæjarlandi en innan lóða er lagt til leysa ofanvatn af þökum eins og hægt er. Málið gengur nú til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

Skipulagssvæðið er ríflega 9 ha að stærð og liggur við íþrótta‐ og golfvöllinn á Bíldudal í landi Hóls með aðkomu frá Bíldudalsvegi. Svæðið afmarkast til austurs af íþróttavellinum til vesturs og norðurs af golfvellinum (Litlueyrarvöllur) og til suðurs af opnu svæði sem liggur að Litlueyrará.

Gert verður ráð fyrir að á svæðinu rísi eins til tveggja hæða byggð með fjölbreyttum húsagerðum þ.e. einbýli, par‐ og raðhús. Lögð verður áhersla á góðar göngutengingar bæði innan svæðisins og við aðliggjandi svæði, þá sérstaklega öruggar gönguleiðir til og frá Bíldudal.

Blágrænar ofanvatnslausnir

Markmiðið með blágrænum ofanvatnslausnum eru m.a. að minnka rúmmálsmagn afrennslisvatns sem kemur inn í frárennsliskerfið, að stýra vatnsgæðum og minnka álag við ofsaflóð / álagspúnkta eða hönnunarstorma með 10 eða 50 ára endurkomutíma, ásamt því að stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika og bæta lýðheilsu . Með því að nota blágrænar ofanvatnslausnir er hægt að hreinsa yfirborðsvatn áður en það rennur út í ánna og sjóinn.

Skipulagssvæðið.

DEILA