Bíldudalur: deiliskipulag hafnarsvæðis til afgreiðslu þrátt fyrir athugasemdir

Bíldudalshöfn.

Skipulags- og umhvecrfisráð Vesturbyggðar leggur til að hafna- og atvinnumálaráð samþykki tillögu að deiliskipulagi fyrir hafnarsvæðið á Bíldudal og að tillagan veði afgreidd skv. skipulagslögum. Fram komu athugasemdir frá Óttari Yngvasyni f.h. Rækjuvers sem taldi að fyrirhugaðar breytingar á hafnarsvæðinu myndu þrengja að starfsemi Rækjuvers og væru ónauðsynlegar.

Farið er fram á í athugasemdum Rækjuvers að Vesturbyggð felli niður tillögu um lóðirnar Strandgötu 14A og 14B, og ennfremur tillögu um stækkun lóðarinnar Strandgötu 10-12 í átt að verksmiðjuhúsi Rækjuvers og að lóðarmörkum Strandgötu 14A. Ennfremur verði fallið frá götulagningu nánast upp að vegg verksmiðjuhúss Rækjuvers sjávarmegin.
Farið er fram á að sjávarmegin við verksmiðjuhúsið verði a.m.k. 15-20 m. breitt athafnasvæði.

Í bókun skipulags- og umhverfisráðs er athugasemdunum hafnað með þeim orðum að í skipulaginu er ekki verið að stækka lóðina að Strandgötu 10-12 í átt að Rækjuver heldur er verið að minnka lóðina í átt að Rækjuver og stofna tvær nýjar lóðir, Strandgötu 14A og 14B á því svæði sem áður tilheyrði Strandgötu 10-12. Lóðarmörk húss Rækjuvers ehf. sjávarmegin að Strandgötu eru við vegg hússins segir í bókuninni. Ráðið getur ekki fallist á að útbúa plan á svæðinu í stað byggingalóða en á landfyllingunni skapast hins vegar tæplega 2200m2 plan/geymslusvæði.

Skipulagstillagan fyrir hafnarsvæðið á Bíldudal.

DEILA