Andlát: Guðmundur Halldórsson, skipstjóri

Látinn er Guðmundur Halldórsson, skipstjóri í Bolungavík. Guðmundur var fæddur á Ísafirði 1933 og ólst þar upp. Hann hefði orðið níræður í janúar næstkomandi. Guðmundur var sjómaður og stundaði ævistarf sitt í rúmlega hálfa öld. Hann tók mikinn þátt í félags- og æskulýðsmálum. Beitti Guðmundur sér m.a. fyrir íþróttakeppnum, málefnum fatlaðra og stóð fyrir námskeiðum í sjóvinnu fyrir ungmenni í Bolungavík. Guðmundur bar hag Vestfjarða fyrir brjósti og stóð oftar en einu sinni fyrir borgarafundum um mikilvæg hagsmunamál Vestfirðinga síðast í september 2017 á Ísafirði.

Barátta hans fyrir breytingum á kvótakerfinu fyrir um 20 árum vöktu landsathygli og í desember 2003 var tekin upp svonefnd línuívilnun sem varð í kjölfarið mikil lyftistöng fyrir útgerð á Vestfjörðum. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir 10 árum rifjaði Guðmundur upp hvernig staðan var. „Við reyndum allt til að vekja athygli á málstað okkar, því tilveruréttur byggðarlaganna var í hættu. Þetta var upp á líf eða dauða,“ og „Línuívilnunin var lykillinn að nýrri uppbyggingu hér í plássinu og hefur skipt sköpum fyrir mörg minni byggðarlög.“

Guðmundur Halldórsson var í byrjun árs 2002 kjörinn Vestfirðingur ársins og er heiðursfélagi í Landssambandi smábátasjómanna og Eldingu, smábátafélaginu á Vestfjörðum. 

DEILA