Teitur Björn: vill meta burðarþol Jökulfjarða

Teitur Björn Einarsson, sem hefur tekið sæti á Alþingi í fjarveru Haraldar Benediktssonar hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar þar sem matvælaráðherra er falið án tafar að láta meta burðarþol Jökulfjarða og Eyjafjarðar og birta burðarþol fyrir Mjóafjörð þegar þær upplýsingar eru tilbúnar hjá Hafrannsóknastofnun.

Þá vill Teitur Björn að strandsvæðsskipulag fyrir Vestfirði verði ekki staðfest fyrr en burðarþolsmatið liggur fyrir.

Í greinargerð með þingsályktuninni segir að það sé lykilforsenda við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem nú stendur yfir, að mikilvægar og veigamiklar upplýsingar, byggðar á vísindalegum rannsóknum um vistkerfi nytjastofna, lífríki þeirra og umhverfi, liggi fyrir áður en mótuð verði tillaga um skipulag strandsvæðis í Jökulfjörðum, Mjóafirði og eftir atvikum, þegar þar að kemur, í Eyjafirði.

Meðal þess sem afstaða er tekið til í strandsvæðaskipulagi er fiskeldi í sjó.  Það er matvælaráðherra sem ákveður hvaða firði eða hafsvæði skuli meta til burðarþols og hvenær það skuli gert. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar.

DEILA