Strandabyggð: Þorgeir bæði oddviti og sveitarstjóri

Þorgeir Pálsson. Mynd: visir.is

Þorgeir Pálsson, oddviti Strandabyggðar var einnig ráðinn sveitarstjóri á fundi sveitarstjórnar í gær. Þrír fulltrúar T listans studdu ráðninguna en einn fulltrúi A lista var á móti.

Matthías Lýðsson, oddviti A lista gerði athugasemd við varamann Þorgeirs á fundinum sem er Grettir Ásmundsson en hann er starfsmaður Strandabyggðar og því undirmaður Þorgeirs Pálssonar og því að mati Matthíasar vanhæfur í atkvæðagreiðslunni. Fór fram sérstök atkvæðagreiðsla um tillögu um vanhæfi Grettis og var hún felld með þremur atkvæðum gegn einu.

A listin gerði nokkrar athugasemdir við ráðningarsamninginn. Laun samkvæmt ráðningasamningnum munu skiptast milli starfs sveitarstjóra og starf oddvita og vera 90% fyrir sveitarstjóraþáttinn og 10% fyrir oddvitahlutann.

Varðandi umsamin mánaðarlaun telur A listinn þau of há miðað við samanburð sveitarfélaga í svipaðri stærðargráðu og þegar rætt er um sveitarfélag í fjárhagskröggum eins og Strandabyggð. Þá var gerð athugasemd við að sveitarstjóri geti unnið önnur aukastörf skv. samningnum. A listinn vill að öll aukastörf séu samþykkt af sveitarstjórn í heild en ekki eingöngu af varaoddvita og varðandi uppsagnarfrest þá gerir A-listi þá athugasemd að réttur til biðlauna eigi eingöngu við starf sveitarstjóra en ekki oddvitahlutann.

A-listi lagði fram eftirfarandi bókun:
„Með ráðningu sveitarstjóra án auglýsingar er verið að ganga á svig við starfsmannastefnu Strandabyggðar þar sem segir: „Að jafnaði eru öll störf sveitarfélagsins auglýst, ráðningarferli er skýrt og starfslýsingar hafðar til hliðsjónar í öllu ferlinu. Ávallt er leitast við að ráða hæfasta umsækjenda til starfa og jafnframt tekið mið af aðstæðum og þörfum vinnustaðarins á hverjum tíma.“ Einnig gengur þetta þvert gegn kosningaloforði T-listans sem segir: „Allar ráðningar í stjórnunarstöður auglýstar.“

DEILA