Skrúður: unnið að friðlýsingu

Minjastofnun Íslands hefur sent til Ísafjarðarbæjar tillögu að friðlýsingu Skrúðs í Dýrafirði. Fram kemur í erindinu að Minjastofnun Íslands hefur lagt til við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að friðlýsa garðinn Skrúð á
Núpi í Dýrafirði.

Tillaga að friðlýsingu var send til Ísafjarðarbæjar 10. september 2021 og gerði skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar athugasemdir við útmörk friðlýsingar. Mörkum friðlýsingarsvæðis hefur nú verið breytt í samræmi við athugasemdir Ísafjarðarbæjar.

Mörk þess svæðis sem lagt er til að friðlýsingin taki til miðast við ytra borð hlaðins garðs, eða annarrar afmörkunar, um Skrúð. Frá ystu mörkum garðsins er 100 m friðhelgunarsvæði sem lútir ákvæðum í 22. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012, þar sem segir m.a.:
„Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis
friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands.“

Í rökstuðningi fyrir friðlýsingunni segir að Skrúður sé einstakt mannvirki. Hann sé afrek og hugarsmíð séra Sigtryggs Guðlaugssonar. Vinna við garðinn hófst 1905 og fyrstu trén gróðursett 1908.

Menntamálaráðherra afhenti Ísafjarðarbæ Skrúð til eignar árið 1997.

DEILA