Sjómannadagurinn Bolungarvík

Róið úr Ósvör. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Sjómannadagur Bolungarvíkur á sér langa og merka sögu og er einn af stóru menningarviðburðunum í bænum ár hvert enda er Bolungarvík ein elsta verstöð landsins.

Haldið verður upp á sjómannadaginn í Bolungarvík í 83. sinn um helgina en fyrst var hann haldinn hátíðlegur þann 29. maí 1939.

Hátíðarhöldin fara fram með hefðbundnu sniði í ár en síðustu tvo sjómannadaga var dagskrá helgarinnar takmörkuð vegna farsóttarinnar.

Hátíðin í ár hefst á fimmtudegi með tónleikum Sigga Björns og Franzisku Günther í Einarshúsi og á föstudag fer fram dorgveiðikeppni á Brimbrjótnum. Á laugardeginum verður hin hefðbundna sjómannadagsdagskrá með hoppuköstulum, kappróðri og skemmtilegum leikjum fyrir krakka og fullorðna. Hátíðarsigling verður út á Djúpið í boði bolvískra sjómanna og útgerða og leikhópurinn Lotta sýnir Pínulitlu Mjallhvíti við félagsheimilið.

Um kvöldið er hátíðarkvöldverður í félagsheimilinu þar sem Eyþór Bjarna fer með gamanmál. Að því loknu er stórdansleikur með hljómsveitinni Óðríki sem valinkunnir heimamenn skipa.

Á sunnudeginum verður farið í hópgöngu frá Brimbrjótnum að Hólskirkju í hátíðarmessu þar sem bolvískir karlar annast messusöng undir stjórn Guðrúnar B. Magnúsdóttur, organista. Benedikt Sigurðsson, stud. theol., flytur ræðu í tilefni sjómannadagsins og sr. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir þjónar fyrir altari. Að guðsþjónustunni lokinni verður gengið í Grundarhólskirkjugarð og lagðir blómsveigar að minnismerkjum sjómanna í garðinum.

Sjómannadeginum lýkur svo með kaffisölu Kvennadeildar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Bolungarvík. Kaffisalan hefur um árabil verið ein mikilvægasta fjáröflunarleið deildarinnar sem ver stærstum hluta tekna sinna til að styrkja björgunarsveit félagsins og stuðla að slysavörnum og öryggi sæfarenda og íbúa. Deildin tekur einnig við frjálsum framlögum á kennitölu 680191-2479 og reikning 174-05-400296.

Sjómannadagshelgin 2022

https://www.bolungarvik.is/vidburdir/sjomannadagshelgin-2022

Sjómannadagurinn 2022 er sunnudagurinn 12. júní og sjómannadagshelgin verður því 9.-12. júní 2022.

Fimmtudagur 9. júní
07:00 Sundlaug Bolungarvíkur opin til 22:00
10:00 Sjóminjasafnið Ósvör opið til 16:00
18:00 Siggi Björns og Franziska Günther í Einarhúsi

Föstudagur 10. júní
07:00 Sundlaug Bolungarvíkur opin til 22:00
10:00 Sjóminjasafnið Ósvör opið til 16:00
17:00 Dorgveiðikeppni fyrir krakka á öllum aldri á Brimbrjótnum

Laugardagur 11. júní
10:00 Sundlaug Bolungarvíkur opin til 18:00
10:00 Sjóminjasafnið Ósvör opið til 16:00
10:00 Sædýrasýning á höfninni
10:00 Lagt á Djúpið, hátíðarsigling frá Bolungarvíkurhöfn
12:00 Pínulitla Mjallhvít, söngvasyrpa Lottu við Félagsheimilið
13:30 Sjómannadagsdagskrá með kappróðri og skemmtilegum leikjum fyrir krakka
20:00 Hátíðarkvöldverður í Félagsheimilinu
23:30 Óðríki á sjómannadagsballi í Félagsheimilinu

Sjómannadagur 12. júní
10:00 Sundlaug Bolungarvíkur opin til 18:00
10:00 Sjóminjasafnið Ósvör opið til 16:00
13:30 Hópganga frá Brimbrjótnum að Hólskirkju
14:00 Hátíðarguðsþjónusta í Hólskirkju
14:30 Kaffisala Kvennadeildar Landsbjargar í Slysavarnarhúsinu til 17:00
14:50 Blómsveigar lagðir að minnismerkjum sjómanna

-fréttatilkynning

DEILA