Rammaáætlun: yfirgnæfandi stuðningur við virkjun á Vestfjörðum 34:7

Bjarni Jónsson, alþm.

Rammaáætlun var samþykkt á Alþingi í gær. Tvær virkjanir á Vestfjörðum voru undir í atkvæðagreiðslunni. Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar lagði til að bæði Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun væru flokkaðar í nýtingarflokk. Varðandi Hvalárvirkjun var það óbreytt afstaða frá fyrri samþykktri Rammaáætlun og Austurgilsvirkjun er ný í nýtingarflokk eftir samþykktina í gær.

Rammaáætlunin var samþykkt örugglega. Þrjátíu og fjórir þingmenn studdu áætlunina í lokaatkvæðagreiðslunni en aðeins sjö greiddu atkvæði á móti. Nú eru því tveir virkjunarkostir á Vestfjörðum í nýtingarflokki og við þá er yfirgnæfandi stuðningur.

Fimm þingmenn kjördæmisins studdu Rammaáætlunina, einn greiddi atkvæði á móti og tveir voru fjarverandi. Þeir sem studdu áætlunina vooru Bergþór Ólason (M), Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (B), Stefán Vagn Stefánsson (B), Teitur Björn Einarsson (D) og Sigríður Elín Sigurðardóttir (D). Bjarni Jónsson (V) greiddi atkvæði á móti tillögunni og Eyjólfur Ármannsson (F) og Halla Signý Kristjánsdóttir (B) voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna.

Áður en til lokaatkvæðagreiðslu kom voru greidd atkvæði um breytingartillögur. Tillaga kom frá Andrési Inga jónssyni (P) um að færa Hvalárvirkjun úr nýtingarflokki í verndarflokk. Hún var felld með 17 atkvæðum gegn 32. Í þeirri atkvæðagreiðslu sat Bjarni Jónsson (V) hjá. Þá voru greidd atkvæði um breytingartillögu meirihlutans um flokkun virkjunarkostanna í verndar- , bið- og nýtingarflokk og var sú tillaga samþykkt 33:13. Nú greiddi Bjarni Jónsson (V) atkvæði gegn tillögunni og þar með gegn því að Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun væru í nýtingarflokki. Atkvæði annarra þingmanna kjördæmisins var í samræmi við það sem fram kom í lokaatkvæðagreiðslunni.

DEILA