Nýjan Baldur

Samgöngur eru æðakerfi samfélaganna. Ef æðarnar þrengjast, teppast eða leggjast af er hætta á drepi í hjartavöðvanum, áfalli sem tjónar og drepur. Samgöngur ráða takti atvinnulífsins – ef þær hiksta, hnýtur kerfið allt. Ef það gerist ítrekað leggst kerfið af og byggðin visnar.

Uppgangur suðurfjarða Vestfjarða undanfarin ár hefur verið aðdáunarverður – þar hefur skipt sköpum leiftursókn nýrra atvinnugreina og fjárfestinga. Fiskeldi, kalkþörungavinnsla og ferðaþjónusta bjóða ný störf og möguleika fyrir fólk til að setjast að – rækta plássin og menninguna. Fylla skólana, leikskólana og halda sveitarstjórnum við efnið í skipulagsmálum.

Í einni vinnuferðinni hjá mér á Bíldudal fylgdist ég sjálfur út um gluggann með kappkakstrinum um bílastæðin á kæjanum einn mánudagsmorguninn í janúar – hver hefði trúað því þegar plássið var í líknandi byggðameðferð hjá stjórnvöldum.

Þessi viðsnúningur er í boði fólksins á svæðinu, atvinnulífs og framsýnna fjárfesta sem trúa á svæðið.

Þrátt fyrir þennan góða árangur steðjar enn ógn að svæðinu – engar, takmarkaðar eða úrsérgengnar samgöngur einkenna stóran hluta svæðisins.

Þegar kemur að samgöngum leiða stjórnvöld framrásina. Eða öllu heldur; ættu að gera það.

Baldur, 40 ára gömul ferja sem tengir Vestfirði yfir Breiðarfjörðin og bilar oftar en reglulega, er birtingarmynd þess að stjórnvöld hafa ekki tekið þátt í viðsnúningi svæðisins af sama krafti og dugnaði og heimamenn.  Ferja sem flytur líf á að vera traustins verð – ferja sem tengir atvinnulíf og vörur við kaupendur og neytendur þarf að vera áreiðanleg.

Það er aðför að lífs – og uppbyggingarbaráttu Vestfirðinga að stjórnvöld dragi fæturnar í málinu – nýjan, nútímalegan og öflugan Baldur fyrir Vestfirði í vexti – þjóð í vexti.

Pétur G. Markan

(greinin birtist fyrst sem bakþanki í Fréttablaðinu 21. júní 2022)

DEILA