Miklar endurbætur eru hafnar á húsnæði Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði. Gylfi Ólafson, forstjóri stofnunarinnar segir að þær snúi að skurð- og slysadeild og einnig að þaki hússins.
„Það má segja að þetta sé annar áfangi af þremur við að endurgera skurð- og slysadeildina sem var óuppgerð frá því að húsið var tekið í gegn fyrir þrjátíu árum. Fyrsta áfanga er að vísu ekki lokið, þar sem enn er beðið eftir öllum innréttingum sem hafa tafist í framleiðslu.
Nú í þessum öðrum áfanga er verið að breyta vöknun og starfsmannarýmum. Enn er skurðstofan sjálf ósnert.
Síðar í haust verður skurðstofan sjálf tekin með áhlaupi, því á meðan þær framkvæmdir standa yfir verður mjög takmörkuð skurðþjónusta í boði.
Yfirverktaki er Tangi.
Einnig hafa verið afar miklar framkvæmdir á þakinu til að komast fyrir þrálát og umfangsmikil lekavandamál þar.“
Ekki liggur fyrir fjárhagslegt umfang framkvæmdanna en ljóst að það nemur háum fjárhæðum.