Matís: Grunnskóli Bolungavíkur sigraði í landskeppni Grænna Frumkvöðla

Vinningsliðið. Mynd: matis.

Í lok maí fór fram Landskeppni MAKEathons, nýsköpunarkeppni Grænna Frumkvöðla Framtíðar á vegum Matvælastofnunar. Þar kepptu skólarnir þrír, Nesskóli, Grunnskóli Bolungarvíkur og Árskóli, til úrslita.
Hver skóli sendi inn myndband þar sem þeir útskýrðu sínar lausnir á umhverfisáskorunum í sinni heimabyggð. Keppnin var hnífjöfn en á endanum var það Grunnskóli Bolungarvíkur sem bar sigur úr býtum. Þeim innan handar voru Hildur Ágústsdóttir kennari og Gunnar Ólafsson frá Djúpinu frumkvöðlasetri.

Grunnskóli Bolungarvíkur glímdi við áskorunina: „Hvernig er hægt að nýta úrgang frá fiskeldi betur “ og lausnin sem vann bar yfirskriftina: „Að nýta úrgang frá fiskeldi á sjálfbæran hátt.“


Hér er fyrir neðan má lesa endurgjöfina sem sigurliðið fékk frá dómnefndinni:
“Þið eruð hugvitssöm og lausnamiðuð. Þið komuð auga á umhverfisvandamál sem skapast vegna fiskeldis í sjó og leituðuð lausna. Það var frábært að fá að sjá skítinn sem safnast hefur fyrir, en það sjónarhorn fær almenningur yfirleitt ekki. Ykkar verkefni gengur út á að breyta úrgangi og botnfalli í auðlind sem nýtist, og gæti því komið bæði náttúru og
sjávarútvegsfyrirtækjum að gagni. Við hvetjum ykkur til að vinna lausnina áfram og hafa í huga mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika í vistkerfum í sjónum, en eldi í sjó getur skaðað hann sé ekki að gætt.“


Í dómnefnd sátu:
• Lenya Rún Taha Karim varaþingmaður Pírata og lögfræðinemi
• Margrét Hugadóttir vefstjóri og verkefnastjóri hjá Landvernd
• Þóra Valsdóttir verkefnastjóri hjá Matís

DEILA