Knattspyrnan: góður laugardagur fyrir Vestfirðinga

Bæði vestfirsku liðin sem taka þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu karla áttu heimaleik á laugardaginn. Fyrst keppti Vestri við Grindavík á Olísvellinum og hafði sigur 2:1 eftir að Suðurnesjamenn höfðu náð forystunni í leiknum. grindvíkingar voru yfir í hálfleik, en í seinni hálfleik skoraði Martin Montipo á 55. mínúti og fyrirliðinn Elmar Atli Garðarsson  skoraði sigurmarkið á 73. mínútu. Sigur Vestra verður að teljast nokkuð sanngjarn. Vestri hefur nú unnið tvo leiki í röð og er komið í 6. sæti deildarinnar með 12 stig eftir 8 leiki af 22 . Vestri er aðeins 3 stigum frá 2. sæti deildarinnar og er heldur betur farið að minna á sig eftir skrykkjótta byrjun.

Hörður frá Ísafirði fékk Reyni Hellissandi í heimsókn seinna um daginn. Leikurinn varð einstefna að marki gestanna og skoruðu Harðarmenn 7 mörk þegar upp var staðið en gestirnir ekkert. Sigurður Arnar Hannesson skoraði 4 mörk. Hin mörkin gerðu Felix Rein Grétarsson, Ragnar Berg Eiríksson og Jóhann Samuel Rendall.

Hörður hefur nú, eins og Vestri, unnið tvo leiki í röð eftir erfiða byrjun á mótinu.

DEILA