Knattspyrna: sigrar hjá Vestra og Herði

Vestramenn fagna marki. Mynd: fotbolti.net.

Bæði Vestri og Hörður unnu sína leiki á laugardaginn í knattspyrnu karla. Vestri gerði góða ferð í Grafarvoginn og hafði sigur gegn liði Fjölnis. Markalaust var í hálfleik en Fjölnir skoraði um miðjan seinni hálfleikinn úr vítaspyrnu. Þremur mínútum síðar hafði Vladimir Tufegdzic jafnað fyrir Vestra með marki úr annarri vitaspyrnu. Í lokin voru Vestrapiltar aðgangsharðir og kom sigurmarkið í uppbótartíma en þá skoraði Martin Montipo af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Vestri er nú í 8. sæti Lengjudeildarinnar með 9 stig eftir 7 leiki. Leiknar eru 22 umferðir. Næsti leikur Vestra er á Ísafirði á laugardaginn kemur gegn Grindavík, sem er í 3. sæti deildarinnar með 13 stig.

Þá fékk Hörður Ísafirði KFB í heimsókn vestur og vann sinn fyrsta sigur í sumar og það stórt 8:1.  Sigurður Arnar Hannesson gerði þrennu og meðal markaskorara Harðar var hinn síungi Pétur Jónsson. Hörður er í sjötta sæti A-riðils með þrjú stig, eins og KFB.

DEILA