Kennarasamband Vestfjarða óskar eftir styrk

Frá fundi Kennarasambandsins á Tálknafirði 2019.

Kennarasamband Vestfjarða hefur óskað eftir styrk frá Ísafjarðarbæ til þess að mæta kostnaði við að leigja rútu á haustþing sambandsins á Drangsnesi 9. september 2022. Sú hefð hefur skapast að haustþingin eru haldin víðsvegar um Vestfirði til að allir geti einhvern tímann fengið að sitja þingið án þess að ferðast um langan veg. Ekki kemur fram hve há styrkbeiðnin er.

„Þessi leið hefur verið farin áður og hefur Ísafjarðarbær ávallt tekið jákvætt í þessa beiðni okkar og veitt okkur styrki sem við erum þakklát fyrir og hefur það í rauninni gert okkur kleift að hafa þetta fyrirkomulag á“ segir í erindi Kennarasambandsins.

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að finna verkefninu stað í núverandi fjárheimildum.

DEILA