Ísafjarðarbær: seinni dagur forsetaheimsóknarinnar

Frá samkomunni í Edinborgarhúsinu.

Á dagskrá seinni dags heimsóknar forseta Íslands til Ísafjarðarbæjar er ferð til Hnífsdals, Suðureyrar og Þingeyrar.

Forsetinn og fylgdarlið mun kynna sér starfsemi Hraðfrystihússins Gunnvarar og hitta starfsmenn þar; þá verður haldið til Þingeyrar og frumvöðlasetrið Blábankinn heimsótt og rætt við hverfisráð Þingeyrar auk þess sem forseti staldrar við bæði í leikskólanum Laufasi og í hjúkrunarheimilinu Tjörn.
Að því loknu liggur leiðin til Suðureyrar þar sem forseti mun kynna sér starfsemi fiskvinnslunnar Íslandssögu, hitta leikskólabörn og skoða starfsemi Fisherman sem byggist bæði á matvælavinnslu og ferðaþjónustu.

Í lok heimsóknar sinnar mun forseti fara í Byggðasafn Vestfjarða í Neðstakaupstað og að síðustu í Safnahúsið á Ísafirði þar sem meðal annars má skoða bóka- og skjalasöfn og ljósmyndasafn.

Í gær átti forsetinn fund með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, heimsótti nýsköpunarfyrirtækið Kerecis, hjúkrunarheimilið Eyri og á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þá lá leiðin í Vestrahús þar sem fjöldi stofnana og fyrirtækja hefur aðsetur og fengu forsetahjónin þar kynningu á margþættri starfsemi og nýjungum, meðal annars á sviði matvælaframleiðslu.

Að þessu loknu tóku forsetahjónin þátt í skrúðgöngu með bæjarbúum frá Ísafjarðarkirkju að Edinborgarhúsinu en þar var samkoma opin almenningi, skemmtiatriði og kaffiveitingar. Um kvöldið var forseti viðstaddur skólaslitaathöfn
Grunnskólans á Ísafirði.

Fundur með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.
Heimsókn í Kerecis.
Heimsókn í Háskólasetur Vestfjarða.
Frá skrúðgöngunni.

Myndir: forseti.is.

DEILA