Ísafjarðarbær: ólögmæt styrkveiting vegna líkamsræktarstöðvar

Frá undirritun samningsins við Ísófit í september 2020. Mynd: Ísafjarðarbær.

Innviðaráðherra hefur þann 23. júní úrskurðað sem ólögmæta styrkveitingu Ísafjarðarbæjar til Ísófit ehf. Segir í úrskurðinum að ákvörðun Ísafjarðarbæjar hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga um jafnræðisreglu, rannsóknarreglu og lögmætisreglu.

Það var fyrirtækið Þrúðheimar ehf sem kærði umrædda ákvörðun Ísafjarðarbæjar sem tekin var 17. september 2020. Krafðist Þrúðheimar ehf þess að hún yrði felld úr gildi. Sveitarfélagið hafði samband bæði við Þrúðheima og Ísófit í upphafi og óskaði eftir tilboðum en gerði að lokum gerði samning við Ísófit um að það annaðist rekstur líkamsræktarstöðvar gegn styrk úr bæjarsjóði.

Samninginn undirrituðu Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri, fyrir hönd Ísafjarðarbæjar og Andrea Gylfadóttir, Ingibjörg Elín Magnúsdóttir og Heba Dís Þrastardóttir fyrir hönd Ísófit. Líkamsræktarstöðin er til húsa í gömlu mjólkurstöðinni, Sindragötu 2.

Ísafjarðarbær greiðir Ísófit ehf. samkvæmt samningnum styrk að upphæð 420.000,- einu sinni í mánuði til næstu 3 ára frá 1. október 2020 til 31. september 2023.

Ráðuneytið lítur svo á að styrkveitingin falli undir eftirlitshlutverk þess skv 109. grein sveitarstjórnarlaga og sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun þar sem styrkurinn sé án móframlags. Rekstur líkamsræktarstöðva sé ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga en þeim sé heimilt að beita sér á því sviði og gæta verður þá að meginreglunni um forsvaranlega meðferð fjármuna. Fundið er að því að Ísafjarðarbær hafi breytt markmiðum sínum eftir fyrstu tillögur og að Ísófit hafi á síðari stigum lagt fram frekari gögn án þess að Þrúðheimum hafi verið gefinn kostur á því sama. Umsóknirnar hafi því ekki verið metnar á jafnréttisgrundvelli.

Við afgreiðslu málsins í bæjarstjórn í september 2020 lagði Arna Lára Jónsdóttir fram langa bókun þar sem málsmeðferðin var harðlega gagnrýnd. Niðurlag bókunarinnar var:

Algjört stefnuleysi hefur einkennt framkvæmd og gjörðir meirhlutans í þessum máli. Á rúmum mánuði hefur meirihlutinn eða formaður bæjarráðs skipt þrisvar um skoðun um hvernig þessum málum ætti að vera fyrirkomið. Einn bæjarráðsfundinn átti að framlengja í Hafnarstræti og byggja upp á Torfnesi, á þeim næsta átti að fara í útboð og á þriðja fundinum lá fyrir samningurinn við Ísófit.“

DEILA