Ísafjarðarbær: laun bæjarstjóra 1.777.329 kr/mán

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Á fundir bæjarstjórnar fyrir helgina var Arna Lára Jónsdóttir ráðinn bæjarstjóri fyrir yfirstandandi kjörtímabil og hefur hún þegar hafið störf. Sex bæjarfulltrúar greiddu ráðningu hennar atkvæði en þrír sátu hjá. Auk fimm bæjarfulltrúa Í listans studdi Steinunn G. Einarsdóttir (D) ráðninguna. Fulltrúar Framóknarflokksins og Jóhann Helgason (D) sátu hjá.

Föst mánaðarlaun bæjarstjóra skulu vera kr. 1.095.021 kr. Föst yfirvinna verður sem nemur 60 klukkustundum á mánuði eða 682.308 kr. Til samanburðar þá voru laun Birgis Gunnarssonar 950.000 kr á mánuði auk yfirvinnu 600.000 kr. Heildarlaun Örnu Láru verða 1.777.329 kr en þau voru 1.550.000 kr í samningi Birgis. Í báðum samningum eru launafjárhæðar verðtryggðar skv launavísitölu. Í tilviki Birgis eru laun hans nú 1.856.900 kr. að teknu tilliti til hækkunar launavísitölu frá desember 2019, sem er viðmiðunin. Launin nú lækka því um rúmlega 78.000 kr.

Samningarnir eru keimlíkir. Í þeim báðum fær bæjarstjóri 6 mánaða biðlaun í lok kjörtímabilsins sé hann þá í starfi. Greiddar eru 500 km á mánuði í bifreiðastyrk. Greiddar eru 120 kr fyrir hvern km. Ekki er greitt sérstaklega fyrir störf í nefndum eða vinnuhópum. Greidd eru afnotagjöld og föst gjöld af farsíma bæjarstjóra og fyrir nettengingu. Heimilt er að segja upp samningnum með 6 mánaða fyrirvara. Varðandi önnur kjaraatriði en að framan greinir er vísað til kjarasamnings Kjarafélags viðskipta- og hagfræðinga (BHM) og Ísafjarðarbæjar (SÍS).

DEILA