Ísafjarðarbær: heildræn árangursstjórnun

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að mikilvægt væri að endurskipuleggja og bæta fjárhag sveitarfélagsins, og leggur það til við bæjarstjórn að ganga til samninga við KPMG um árangursstjórnun í fjármálum Ísafjarðarbæjar, í samræmi við verkefnatillögu KPMG, og á grundvelli framlagðs samnings, með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum, en bæjarstjóra var falið að vinna þær frekar.

Gert er ráð fyrir að verja 11,5 m.kr. til verkefnisins. Í fjárhagsáætlun er 1,5 m.kr. tiltækar svo lagt er til að auka fjárveitinguna um 10 m.kr.

Í kynningu segir að Ísafjarðarbær standi frammi fyrir áskorunum í fjármálum. „Afkoma af rekstri hefur verið óviðunandi og ýmis fjármálahlutföll óhagstæð. Metnaður sveitarfélagsins er að ná sjálfbærri stöðu í fjármálum og rekstri til framtíðar. Því er óskað eftir verkefnatillögu frá KPMG við að móta skýra sýn, markmið og umgjörð til að efla og ná auknum árangri í fjármálum.“

Verkefnatillaga KPMG byggist á eftirfarandi áföngum:

  1. Greina núverandi stöðu – áskoranir og tækifæri.
  2. Móta sviðsmyndir fyrir mismunandi þróun á helstu drifkröftum.
  3. Innleiða heildræna árangursstjórnun.
  4. Aðstoða við stöðugar umbætur og festa árangur í sessi.
Kynningarglæra frá KPMG.

DEILA