Í-listinn: stjórnmál snúast um traust – ekkert fiskeldi í Jökulfjörðum

Á myndinni eru frá vinstri, Gylfi, Nanný, Magnús, Sigríður Júlía og Arna Lára.

Í listinn í Ísafjarðarbæ, sem hlaut meirihluta í bæjarstjórnarkosningunum, segir í stefnuyfirlýsingu sem listinn hefur birt að stjórnmál snúist um traust og samvinnu. „Traust þarf að ríkja milli fólks innan stjórnkerfisins og milli íbúa. Önnur sveitarfélög þurfa að treysta Ísafjarðarbæ í samstarfi og getað leitað eftir samvinnu við okkur“ segir í yfirlýsingunni sem ber yfirskriftina uppbygging, traust, samvinna.

Áréttað er að fjárhagur þurfi að vera traustur svo hann beri velferðina sem sveitarfélaginu er ætlað að veita.

Boðað er að gerð verði úttekt á fjármálum sveitarfélagsins og að sett verði skýr fjárhagsleg markmið um skuldahlutfall, launahlutfall og veltufé frá rekstri.

Skoðaður verður möguleiki á heimastjórnum í þeim byggðakjörnum sem þess óska og haldnir verða íbúafundir í öllum byggðakjörnum.

Ísafjarðarbær er opinn fyrir öllu samstarfi sveitarfélaga á svæðinu og hugmyndum um sameiningu þeirra.

Fiskeldi

Í listinn ætlar að berjast fyrir því að auðlindagjöld sem skapast af fiskeldi renni til sveitarfélaga.

Um fiskeldið segir í stefnuyfirlýsingunni að fiskeldi eigi áfram að vaxa í Ísafjarðardjúpi en Jökulfjörðum verði haldið utan þeirrar uppbyggingar.

Samstarf um fjölnota íþróttahús

Um uppbyggingu íþróttamannvirkja segir að fyrir liggi viljayfirlýsing um uppbyggingu fjölnota íþróttahúss sem myndi leysa skort á aðstöðu fyrir hinar ýmsu íþróttagreinar. „Verkefnið er spennandi en ófjármagnað af hálfu bæjarins. Ná þarf breiðu samstarfi um verkefnið, þ.m.t. við Bolungarvík, atvinnulífið, KSÍ og ríkið.“

Boðað er að endurskoða almenningssamgöngur með tómstunda- og íþróttastarf barna sérstaklega í huga.

Margt fleira er nefnt í stefnuyfirlýsingunni, m.a. er vikið að væntanlegum þjóðgarði við Dynjanda og Hrafnseyri sem eigi að opna á kjörtímabilinu án þess að útiloka virkjanakosti. Sett verður upp hundagerði í Skutulsfirði og áfram verður unnið með hjólastefnu Ísafjarðarbæjar og stuðlað þannig að greiðum samgöngum fyrir hjólandi, fólk í hjólastólum og rafskutlum, hlaupahjólum og öðrum léttum ferðamátum.

DEILA