Gönguferð í Arnarfirði -Dynjandi – Ós – Kirkjuból – Skógar – Horn – Laugaból – Hokinsdalur – Langanes

Ferðafélag Ísfirðinga verður með gönguferð laugardaginn 18. júní í Arnarfjörð.
Leiðsögumaður: Emil Ingi Emilsson.
Brottför: Kl. 9 á einkabílum frá Bónus á Ísafirði.


Keyrt á einkabílum að bænum Laugabóli með stuttum sögustundum við bæina Dynjanda, Ós, Horn, Skóga og Kirkjuból. Frá Laugabóli er gengið inn í Hokinsdal og þaðan út á Langanes. Þeir sem treysta sér til og hafa gönguþrek ganga hring um Hokinsdal (sjá brotalínu á mynd) og lengja leiðina sem því nemur.

Áætlaður göngutími er um 6 klst, vegalengd 18 km þar af 10 km. frá Dynjanda að Laugabóli.

Það er frá mörgu að segja á þessari leið. Á Dynjanda bjó m.a. hinn þekkti sægarpur og Eyfirðingur Símon Sigurðsson sem ásamt mági sínum Jóni Bjarnasyni í Stapadal  keypti skútuna Margréti Maríu í Danmörku. Þessi kaup sættu miklum tíðindum því skip þetta virðist hafa verið fyrsta skútan sem bændur í Ísafjarðarsýslu réðust í að kaupa og gera út.  Skútan var gerð út frá Dynjanda í sex ár. Margir afkomendur Símonar urðu afburðasjómenn og nokkrir nafnkenndir skipstjórar. Þeirra þekktastur er Markús Bjarnason, fyrsti skólastjóri Stýrimannaskólans.

Næsti bær er Ós en síðasti ábúandi þar var Þorbjörn Pétursson sem í lok búskapar jarðaði kindur sínar.

Utan við Ós er næst komið að Kirkjubóli en sú jörð er önnur af tveimur stærstu jörðum í Mosdal. Á Kirkjubóli var á öldum áður bænhús eða hálfkirkja og er þar komin skýring á nafni jarðarinnar. Úr röðum bændanna sem hér bjuggu á síðustu öld varð víðkunnastur Jóhannes Ólafsson „galdramaður“ er hóf hér búskap á árunum kringum 1810 og átti hér heima til æviloka en hann andaðist haustið 1855. Margar frægar sögur eru til af galdrakunnáttu hans. Þær verða ekki ritaðar hér en sumar þeirra verða örugglega sagðar í ferðinni. Jörðin fór í eyði árið 1959.

Jörðin Skógar er utan við Kirkjuból. Árið 1816 bjó ekkjan Guðný Ívarsdóttir í Skógum. Hún bjó hér fram yfir 1840 en sonur hennar, Guðmundur Guðmundsson, var um alllangt skeið ráðsmaður á búi móður sinnar Hann var nefndur „Skóga-Gvendur“ og talinn ærið göldróttur. Innarlega í túninu stendur Landdísarsteinn.  Skömmu eftir 1920 var reist skólahús á jörðinni fyrir börnin í Mosdal og þar var síðast kennt veturinn 1944–45. Skógar fóru í eyði árið 1947.

Horn í Mosdal var önnur tveggja stærstu jarðanna í dalnum, 24 hundruð að dýrleika að fornu mati. Nafn sitt dregur jörðin að öllum líkindum af klettahorni í fjallsbrúninni. Í fjallinu upp af gamla bæjarstæðinu er Hornshvilft. Þar vottar fyrir tóft af fornu hofi. Litlu utar er Úlfhildarhvilft. Sagt er, að þar sé heygð fornkona með því nafni. Horn fór í eyði árið 1942.

Bærinn Laugaból ber nafn af heitri laug sem er utan við túnið. Inn og niður af bænum, rétt við sjóinn er holt það sem Mosdælir kveiktu eld á, er þeir vildu ná í prestinn á Hrafnseyri. Heitir það Reykholt. Innarlega á Laugabólshlíðinni er hryggur nefndur Hagahryggur, og djúpar gjótur í fjallinu upp af honum kallast Hrafnssonagjótur. Sagt er, að synir Hrafns Sveinbjarnarsonar hafi flúið þangað, þegar faðir þeirra var tekinn af lífi.

Utan við Skarðanúp í landi Laugabóls kemur Hokinsdalur, allmikill dalur, grösugur hið neðra og töluvert gróðrulendi upp með ánni, sem um hann rennur og kallast Hokindalsá. Í dalnum er bær samnefndur honum. Nálægt hálftíma gangur er frá sjó að bænum. Naustavík heitir vík við sjóinn en þar var lending. Lítið fyrir innan hana er nes sem kallast Brimnes. Fram af því nokkuð langt frá landi er sker sem nefnt er Gíslasker, kennt við Gísla Súrsson, sem á að hafa kastað steini út í það. Þá er Kerlingin í Sveinseyrardalnum ekki eini klettadrangurinn sem heitir því nafni hér á landi þar sem að rétt innan við Langanestána eiga Arnfirðingar einnig sína Kerlingu.

Eini ábúandinn á göngusvæðinu er Laugabólsbóndinn Árni B. Erlingsson.

Það verður áreiðanlega fróðlegt og um leið gaman að ganga um þetta göngusvæði.  Arnfirðingar voru þekktir fyrir það að vera afburða góðir sjómenn. Þeir voru einnig þekktir fyrir það að láta yfirvaldið ekki vaða yfir sig og þurftu sumir að gjalda fyrir það. Einna þekktastur mun hafa verið Guðmundur Guðmundsson vinnumaður á Baulhúsum sem leyfði sér að véfengja réttmæti dóms í galdramáli árið 1679. Fyrir það varð hann látinn svara til saka og dæmdur til að hýðast með 90 vandarhöggum. Dómnum var fullnægt á Alþingi árið 1697.  Samkvæmt heimildum á hann að hafa harkað vel af sér hýðinguna. Hann hafi að þeim afloknum gengið til tjalds síns og fengið sér að borða. Voru allir viðstaddir undrandi á því hversu vel hann þoldi öll vandarhöggin. Hann hafi svo tekið hest sinn og riðið heim af þingi. Þessi uppreisnarmaður sem bjóða vildi yfirvaldinu byrginn er á lífi sex árum síðar og á þá hlut í jörð í Auðkúluhreppi.

Gangan er tileinkuð minningu Lassa Diðrikssonar sem brenndur var á báli árið 1675 sem og reyndar öllum saklausum fórnarlömbum galdrafársins.

Láttu þetta tækifæri til að efla líkama og sál í góðum félagsskap ekki fram hjá þér fara. Við hlökkum til að sjá þig í göngunni.

DEILA