Framlínunámskeið Íslenskuvæns samfélags

Framlínunámskeið átaksins Íslenskuvænt samfélag fór fram síðastliðinn fimmtudag í Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Námskeiðið var ætlað fyrir erlent fólk í þjónustustörfum, hvernig það má sem mest nota íslensku við starf sitt svo og  hvernig innfæddir geti hjálpað því í þeirri viðleitni.

Áherslan var lögð á að íslenskan þurfi ekki að vera fullkomin heldur að dropinn holi steininn, að margt smátt geri eitt stórt. Slík námskeið geta komið starfsfólki til góða svo og þeim gestum sem vilja tala íslensku og eru kannski að læra málið.

Það er skemmst frá því að segja að þótt ekki hafi margir mætt – fjórir mættu, tveir frá Dokkunni, einn aðili frá Tjöruhúsinu og einn frá Hversdagssafninu, hafi námskeiðið farið vel fram. Þátttakendur voru áhugasamir og vildu endilega bæta íslenskukunnáttu sína.

Blásið var til námskeiðsins með stuttum fyrirvara. Var því ekki mikill tími til að gera ráð fyrir þátttöku af hálfu vinnuveitenda. Meðal þess sem fjallað var um á námskeiðinu var orðaforði og setningar sem hjálpa starfsfólki við að taka pantanir í gegnum síma og að öðru leyti í störfum sínum.

Áformað er að halda annað framlínunámskeiði í júlí sem gæti komið sér vel í ljósi þess að í ágúst mun umtalsvert af íslenskunemendum spássera um bæinn og leitast við að nota þá íslensku sem þeir læra í skólanum við raunverulegar aðstæður.

Tímasetning námskeiðsins í júlí verður auglýst bráðum en verður líklega um miðjan mánuðinn.

Starfshópur Íslenskuvæns samfélags

DEILA