Framfarir og atvinnubylting á Suðurfjörðum

Ólafur Bjarni Halldórsson.

Það er fagur vormorgun í maí þegar við bræður ég og Guðmundur, nálega níræður sjóvíkingur með óstjórnlegan áhuga á atvinnumálum á Vestfjörðum, leggjum upp í kynnisferð í Arnarfjörð, Tálknafjörð og Patreksfjörð. Tilgangurinn er að fræðast um þann viðsnúning eða öllu heldur atvinnubyltingu sem hefur átt sér stað þar. Við ökum á malbiki alla leið í Arnarfjörð þar með talin glæsileg jarðgöng sem kallast Dýrafjarðargöng. En er komið er hjá mestu perlu Vestfjarða, fossinum Dynjanda, þá tekur við árgerð 1959, Dynjandisheiðin margfrestaða með öllum sínum holum, hlykkjum og blindhæðum. Það átti enn að fresta framkvæmdum í ár, en þegar þetta er ritað hefur einhvern veginn tekist að hressa upp á fjárhag Vegagerðarinnar og framkvæmdir eru að hefjast til að koma þessum rúmlega 60 ára gamla vegi inn í nútímann.

Kalkþörungar og lax á Bíldudal

Eftir tæplega tveggja stunda akstur námum við staðar hjá kirkjunni á Bíldudal. Þar tók á móti okkur Halldór Halldórsson fyrrverandi bæjarstjóri og borgarfulltrúi. Hann tekur okkur ákaflega vel, sýnir okkur kalkþörungaverksmiðjuna sem hann stýrir. Við göngum fyrst meðfram margbreytilegum vélabúnaði verksmiðjunnar sem hefur það hlutverk að breyta hráefni í eftirsótta afurð. Settumst að því loknu niður og létum Halldór fræða okkur um þetta unga fyriræki sem hóf starfsemi er hrunið skall á. Tveir frumkvöðlar þeir Pétur Bjarnason skóla- og alþingismaður og Aðalsteinn Óskarsson þá framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða hrundu hugmyndinni af stað og gerðu hana að veruleika, þökk sé þeim fyrir framsýnina. Verksmiðjan vinnur árlega um hundrað og tuttugu þúsund tonn af kalkþörungi úr hafinu sem skapa um sjötíu þúsund tonn af afurðum. Leyndarmál iðnaðarins er að viðbætt kalk eykur hollustu matvæla sem gerir afurðina eftirsótta úti í hinum stóra heima. Afurðirnar eru nýttar í fóðurbæti og til margvíslegs matvælaiðnaðar. Þekkt alþjóðleg amerísk stórfyrirtæki eru meðal viðskiptavina og afurðir rata til fjarlægra landa eins og Saudi Arabíu og Ástraliu. Á þriðja tug manna starfa við verksmiðjuna og ekki þarf getum að leiða að áhrifum á sveitarfélagið, mannlífið og starfsemi hafnarinnar. Við þökkuðum Halldóri kærlega mjög fróðlegt spjall og héldum til fundar við annað fyrirtæki sem hefur haft mikil áhrif á sveitarfélagið.

Arnarlax á Bíldudal

Skrifstofur Arnarlax eru skammt undan nánar tiltekið í gamla kaupfélaginu á staðnum. Þar hittum við þrjá forystumenn: Björn Hemdre forstjóra, Hannibal Hafberg framkv.stj. vinnslu og pökkunar og Jón Garðar Jörundsson framkv.stj. viðskiptaþróunar. Til að allir væru með á nótunum fóru samræðurnar fram á heimsmálinu, ensku. Ég spurði forstjórann fyrst um þá gagnrýni sem atvinnuvegurinn hefur sætt: Laxadauða, erfðablöndun og sjúkdóma og flutning fjármagns úr landi. Í stuttu máli svaraði hann að þeir kappkostuðu að fylgja íslenskum lögum og regluverki og hefðu til dæmis náið samstarf við Hafró og aðrar eftirlitsstofnanir. Enginn hefði meiri hagsmuni af að gera hlutina rétt en þeir sjálfir. Um fjármagnsflutninga sagði hann að enn hefði ekki ein einasta króna verið flutt úr landi fjármagnið hefði allt farið í uppbyggingu. En fyrirækið er almenningshlutfélag á markaði og vonandi kemur að því að það geti skilað eigendum víðsvegar um heim einhverri ávöxtun en það er ekki komið að þeim kafla. Litlu samfélögin fá hins vegar ávöxtun strax í formi 16 þúsund tonna framleiðslu og nálega 200 starfa, og fjölda afleiddra starfa. 10 íbúðir eru í byggingu og Bíldudalur, sem taldi um 100 íbúa áður en umsvifin hófust þar af rúmlega 50 með vetursetu, telur nú um 280 og er fjölgunin aðallega ungt fjölskyldufólk. Miljarða fjárfesting er að skila sér til samfélagsins og þjóðarinnar með stórauknum útflutnings- og gjaldeyristekjum. Það kann að vera að færa megi rök fyrir neikvæðum áhrifum á náttúruna en þá verður að kosta kapps um að þau verði lítil sem engin, en jákvæð áhrif á mannlífið fara ekki á milli mála.

Myndir: Ólafur Bjarni Halldórsson.

Seiðaeldi í Tálknafirði

Nú var ekið í næsta fjörð Tálknafjörð þar sem atvinnulífið hefur oft verið þróttmikið. Þar hefur átt sér stað mikil uppbygging og er einkum lögð áhersla á ungviðið í fiskeldinu, það er seiðaeldi. Arctic Fish hefur reist þar geysistóra seiðaeldisstöð með öllum nútíma tæknibúnaði. Þar hittum við færeyskan stjórnanda Johan Hansen. Kynnti hann okkur fyrir rekstrarstjóranum Sigurvin sem sýndi okkur starfsemina. Fer ekki á milli mála að hér er hugsað til framtíðar og miklir fjármunir lagðir undir eða um 10 miljarðar. Auðlindin í Tálknafirði er heitt vatn sem gerir skilyrði seiðaeldis ákjósanleg. Mesta athygli vakti að vatnið er allt geislað og minnkar það mjög áhættu á sjúkdómum sem hafa hrjáð atvinnuveginn. Auk þessa er Arnarlax með frameldi í firðinum. Hér vinna saman tvö nauðsynleg öfl, auðlindir í litlu þorpi og mikið fjármagn sem leggur grunn að verðmætasköpun.

Sjóeldi á Patreksfirði

Lokaáfangi ferðar okkar var stærsti staðurinn Patreksfjörður. Þar tók á móti okkur Páll Líndal, sjóari sem hefur marga fjöruna sopið. Við fórum með honum á þjónustubáti í sunnanverðan fjörðinn þar sem voru tíu eldiskvíar með 5 þúsund tonnum af laxi auk fóðurbáts sem við fengum að skoða. Það var drjúgur spölur þvert yfir fjörðinn. Patreksfjörður á sér merka sögu í atvinnu- og menningarlífi en Páll kvað hann sem óðast hafa verið að breytast í svefnbæ áður en uppbygging hófst. Við ætluðum að hitta einhvern að máli í fóðurbátnum en skipstjórinn kvað hann vera mannlausan en tæknilega vel búinn. Það voru orð að sönnu því úr honum lágu leiðslur í allar tíu eldiskvíarnar og var fóðurgjöfinni stjórnað frá Þingeyri! Það var einkum til að gæta þess að dýrt fóður færi ekki til spills og sykki til botns. Hér var augljóslega fjárfest í tækninni og hún látin þjóna gífurlegum umsvifum sem ekki yrði unnin með handaflinu. Menn geta leikið sér að að reikna verðmætin af 5.000 tonnum í eldiskvíum þegar kg. af laxi er að nálgast eitt þúsund krónur. En það er miklu kostað til og mikil rekstrarkúnst að láta enda ná saman, þó eldismenn vonist til að það markmið náist með árunum.Við lukum þessari ferð með ánægjulegri og upplýsandi sjóferð og héldum heim yfir Kleifaheiði og grösugar sveitir Barðastrandar. Við tók síðan Pennudalur sem hefur eftir 60 ár verið undirbúinn undir malbik. Við tóku góðir vegir við Mjólká og heimferðin gekk vel eftir mjög svo upplýsandi ferð.

Eftirmáli

Hvað var það helst sem við bræður lærðum af þessari ferð? Það sem mesta athygli vakti var að það er ennþá von fyrir litlar byggðir að eflast þó að kerfisbreytingar í þeirra undirstöðuatvinnuvegi hafi ekki verið þeim vinsamlegar. Straumhvörfin sem hafa orðið, fjölgun íbúa, bygging nýs húsnæðis, bættur efnahagur almennings og sveitarfélaga hefur aukið bjartsýni manna og trú á framtíðina sem áður lýsti sér í hinu gagnstæða. Gagnrýni á þennan unga atvinnuveg hefur verið mjög óvægin. Hefur hún gengið það langt að menn vilja hann jafnvel dauðan og sumir hafa sagt að það eigi að gera “eitthvað annað” án þess að skilgreina hvað það er. Ég kynntist atvinnuveginum á níunda og tíunda áratugi síðustu aldar þegar vanþekking og skortur á fjármagni voru orð dagsins og endirinn varð nánast allsherjar greiðsluþrot. Nú eru breyttir tímar og tækniþekking og umhyggja fyrir náttúrunni hefur kennt mönnum að fara sér hægt og temja sér þolinmæði. Þeir sem eru á móti atvinnuveginum, sama hvað, þurfa til að vera sjálfum sér samkvæmir að svara því hvort þeir séu tilbúnir að afsala sér þeirri miklu verðmætasköpun sem atvinnuvegurinn færir þjóðfélaginu og sömuleiðis hvort þeir séu andsnúnir þeirri umbreytingu og byggðaþróun sem þessar þrjár litlu byggðir eru talandi dæmi um. Þeir sem vilja “eitthvað annað” þurfa að tala skýrt um hvað það fyrirbæri þýðir. Nú bíðum við á norðanverðum Vestfjörðum eftir að sjá hér hliðstæða þróun og hvetjum nýkjörnar sveitastjórnir til að greiða götu framfara og aukinnar velmegunar sem atvinnuvegurinn skapar.

Ólafur Bjarni Halldórsson, Ísafirði.

DEILA