Björgunarsveitin Ernir kaupir annan bát

Björgunarsveitin Ernir í Bolungavík hefur fest kaup á  á nýjum Kobba Láka. Báturinn heitir nú í dag RS Hvaler og er í eigu norsku sjóbjörgunarsamtakanna og var smíðaður 2004. Birgir Loftur Bjarnason formaður Ernis segir sveitina standa að öllu leyti straum af kaupunum en með aðstoð bæjarbúa og styrktaraðila sé þetta gerlegt. Hann segir sveitina standa vel fjárhagslega.

„Þessi bátur er mikið skref uppá við fyrir okkur og verður aukin viðbragðsgeta hér á svæðinu“ segir Birgir Loftur. Báturinn er 12,8 metra langur og útbúinn öflugum búnaði sama hvar á það er litið. Í bátnum eru 2 öflugar Yanmar vélar og er hann drifinn áfram með jeti. Ganghraði bátsins er vel yfir 30 sjómílur á klukkustund. Einnig er báturinn útbúinn góðum slökkvibúnaði.
Báturinn verður afhentur úti Noregi um mitt sumar og verður vonandi kominn vestur fljótlega eftir það. Gert er ráð fyrir að báturinn verði fluttur með skipi til landsins en siglt vestur frá Reykjavík. Birgir Loftur segir bátinn í góðu standi og verði strax tilbúinn til notkunar.

DEILA