Bana­slysið í Skötu­firði í janúar 2021 – Líklegast að ökumaðurinn hafi sofnað

Mynd af slysavettvangi. Hjólför eftir bifreiðina má sjá á myndinni og einnig hvar bifreiðin hafnaði í sjónum

Rannsóknarnefn samgönguslysa hefur lokið rannsókn á banaslysi sem varð við eyðibýlið Eyri í Skötufirði í janúar 2021.

Að morgni 16. janúar var Hyundai Santa Fe fólksbifreið ekið út Skötufjörð við Ísafjarðardjúp í átt að Ísafirði. Tveir farþegar voru í bifreiðinni auk ökumanns. Fólkið var að koma beint úr millilandaflugi og hafði verið á ferðalagi í að minnsta kosti 15 klst þegar slysið varð.

Hjólför eftir bifreiðina sýndu að hún hafði farið yfir á rangan vegarhelming rúmum 200 metrum áður en hún endaði í sjónum.

Lengd vettvangsins og hjólförin eftir bifreiðina benda til þess að ökumaðurinn hafi ekki strax reynt að hemla. Bifreiðin var nærri því komin út af vinstra megin áður en hægt var að greina ummerki um viðbrögð ökumanns.

Konan og barnið sem létust voru í aftursæti bílsins og benda rannsóknarniðurstöður til að þau hafi látist úr ofkælingu.

Áætlað sé að þau hafi lagt af stað frá Keflavíkurflugvelli um klukkan þrjú um nóttina og ekið sem leið lá vestur. Slysið hafi orðið um átta tímum síðar, klukkan 10:40, enda hafi ferðin sóst fremur hægt vegna vetrarfærðar. „Þegar slysið varð var liðinn um sólarhringur frá því að ökumaðurinn vaknaði deginum áður. Að hans sögn hafði hann blundað nokkrum sinnum, bæði í flugvélinni og á ferðinni vestur þegar hann var í farþegasæti.“ að því er segir í skýrslunni.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur rannsakað nokkur banaslys undanfarin ár þar sem orsök er rakin til þess að ökumaður fer þreyttur í langferð eftir næturflug. Ábendingar sem nefndin kemur með eru:

Enginn skyldi aka bifreið langar leiðir eftir næturflug til landsins. Vegna þessa slyss beinir Rannsóknarnefnd samgönguslysa þeirri tillögu til Almannavarna að gæta sérstaklega að því að í leiðbeiningum um sóttvarnir sé mælt fyrir um nauðsyn hvíldar áður en lagt er upp í ferðalög á bifreiðum eftir næturflug til landsins. Mikilvægt er að benda á hvíldaraðstöðu eftir flug og kynna vandlega upplýsingar þar um.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Neyðarlínunnar og Landsspítala háskólasjúkrahúss að huga að möguleikum og kostum fjarlækninga til aðstoðar og viðbragða í slysum.

DEILA