
Hafnaryfirvöld á Tálknafirði og í Vesturbyggð, sem Patreksfjörður, Bíldudalur og Barðaströnd teljast til, fengu í gær afhent 35 björgunarvesti að gjöf. Vestin eru sérhönnuð fyrir börn og tilgangurinn er að auka öryggi hafnarsvæðanna í sveitafélögunum. Hafnir eru algeng leiksvæði barna í sjávarbyggðum en geta um leið reynst þeim mjög hættulegar.
Nýju barnavestin uppfylla ströngustu staðla og vottanir um öryggi en þau verða geymd á áberandi stað í merktum körum á hafnarsvæðum sveitarfélagannasegir í fréttatilkynningu.
Það er fiskeldisfyrirtækið Arnarlax sem gaf vestin en fyrirtækið er umsvifamikið á Vestfjörðum og er með hafnsækna starfsemi á þremur ólíkum stöðum í landshlutanum.
„Með þessari gjöf viljum við stuðla að öryggi barna á hafnarsvæðunum en mikið er um að ungir veiðimenn leggi leið sína á bryggjurnar, ekki síst á sumrin og á fallegum vordögum eins og undanfarið. Á sama tíma er þar oft mikil umferð, það getur verið hált og ekki víst að fólk verði þess alltaf var ef einhver fellur í höfnina,“ segir Silja Baldvinsdóttir gæðastjóri Arnarlax.