Yfir þúsund vestfirskir leikhúsgestir

Hin einstaka listahátíð Litla Act alone var haldin hátíðleg á Vestfjörðum liðna viku. Þetta er í annað sinn sem Litla Act alone fer fram og er um leið sú síðasta. Ástæðan er einföld, einsog allt hjá Actinu þar sem tilveran snýst um töluna einn, því Litla Act hefur komið í stað stóra Acts á Suðureyri síðustu tvö ár. Sökudólgurinn er heimsveiran sem geisað hefur og yfirtekið margt skemmtilegt. Sem betur fer er sú pest nú að verða forn og því verður stóra Act alone haldin að nýju núna í ágúst. Nánar tiltekið á Suðureyri dagana 4. – 6. ágúst.

Hugmyndin að baki Litla Act alone er að bjóða öllum leik- og grunnskólanemum á Vestfjörðum ókeypis í leikhús. Ekki nóg með það heldur mætir leikhúsið til æskunnar í þeirra heimabæ. Á Litla Act alone 2022 var boðið upp á fjórar einstakar leiksýningar sem sýndar voru alls 16 sinnum um alla Vestfirði. Ýmist var sýnt í leikhúsum eða skólunum sjálfum. Á Ísafirði var sýnt í Hömrum og komu allir leik- og grunnskólanemar bæjarins þangað og nutu einstakrar leikhússtundar. Í Bolungarvík var sýnt í Hörpu Vestfjarða, í Félagsheimilinu og þannig mætti áfram telja. Allar sýningar voru á skólatíma og því fengu öll börn Vestfjarða tækifæri að sjá leikina.

Aðsókn var því einstaklega góð eða vel yfir þúsund áhorfendur.

Aðalstyrktaraðili Litla Act alone er Uppbyggingarsjóður Vestfjarða. Einnig styrktu hátíðina Klofningur Suðureyri, Orkubú Vestfjarða, Bolungarvíkurkaupstaður, Tónlistarfélag Ísafjarðar, Gistihúsið við höfnina Bíldudal og Ferðaþjónustan Kirkjuból Ströndum.

DEILA