Vesturbyggð: 80.000 tonna laxasláturhús á Patreksfirði

Frá Patreksfirði, Vatneyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar í dag voru kynnt drög að viljayfirlýsingu vegna uppbyggingar sláturhús á Patreksfirði. Samkvæmt viljayfirlýsingunni áformar Arnarlax að byggja sláturhús á lóð á Vatneyri en gert er ráð fyrir að Straumnes (Kaldbakur) og móttökusvæði fyrir úrgang víki af lóðinni. Þá er gert ráð fyrir uppsetningu biðkvía og framtíðaruppbyggingu stórskipakants við Patrekshöfn. Áætlað er að sláturhúsið sjálft verði um 9.500 m2 og þar verði til framtíðar unnt að slátra allt að 80.000 tonnum af eldisfiski. Þá er í yfirlýsingunni mælt fyrir um gerð langtímasamnings um aflagjöld og samkomulag um ógreidd aflagjöld að því fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar.

Sex bæjarfulltrúar samþykktu bókun  þar sem bæjarstjórn Vesturbyggðar „fagnar því að nú liggi fyrir skýr áform Arnarlax um framtíðarslátrun eldisfisks á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem nú þegar er árlega slátrað 23.000 tonnum af eldisfisk. Bæjarstjórn fagnar þeirri miklu framtíðarfjárfestingu sem Arnarlax áformar að ráðast í á næstu árum með byggingu sláturhús á Patreksfirði. Bæjarstjórn staðfestir viljayfirlýsinguna og felur bæjarstjóra að undirrita hana fyrir hönd Vesturbyggðar.

Einn bæjarfulltrúi, Jörundur Garðarson studdi ekki bókunina og sat hjá. Hann lét bóka:

„Ég get ekki samþykkt viljayfirlýsingu um flutning laxasláturhússins, stærsta vinnustaðarins á Bíldudal til Patreksfjarðar. Þetta er slíkt stórmál að það mun hafa miklar afleiðingar fyir Bíldudal þegar til lengri tíma er litið. Ég sit hjá við atkvæðagreiðslu.“

Yfirlýsingin hefur ekki verið birt.

DEILA