Uppskrift vikunnar -Kínverskur wok réttur með lambakjöti og grænmeti í ostrusósu

Þessi uppskrift finnst mér alltaf standa fyrir sínu, hún er einföld og auðvelt að breyta til, til dæmis með mismunandi grænmeti, skipta lambinu út fyrir kjúkling eða naut. Í raun og veru nota ég þessa uppskrift sem viðmið og svo er bara um að gera að prufa breyta og bæta og finna út hvað hverjum þykir best.

Hráefni

5-600 g lambalundir eða fillet, skorið í litla bita

80 ml sherrý

1 tsk salt

1 laukur, skorinn gróflega

6 þunnt skornar engifersneiðar

3 hvítlauksrif, söxuð

80 ml grænmetisolía

Sósa

2 msk ostrusósa

2 msk sykur

2 msk soyasósa

2 msk edik

½ tsk sesamolía

4 msk vatn

Leiðbeiningar

Grænmeti að eigin vali, líka gott að hafa kasjúhnetur.

Skerið kjötið í litla bita og látið liggja í sherry og salti í um 30 mínútur.

Hitið helminginn af olíu á pönnunni þar til hún er orðin vel heit. Bætið þá helminginn af kjötinu út á pönnuna og steikið í um 30 sek. Takið af pönnunni og steikið hinn helminginn af kjötinu og takið svo af pönnunni.

Bætið restinni af olíunni út á pönnuna og steikið lauk, engifer og hvítlauk í nokkrar mínútur en hrærið reglulega í svo hvítlaukurinn brenni ekki. Bætið öllu grænmetinu saman við og steikið þar til farið að mýkjast. Bætið þá kjötinu og sósunni saman við og steikið þar til lambið er farið að mýkjast.

Berið fram með hrísgrjónum.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA