Þyrluflug í friðlandinu: Hæstiréttur leyfir áfrýjun dóms Landsréttar

Fljótavík. Mynd: fljotavik.is

Hæstiréttur hefur fallist á erindi BlueWest ehf., Friðgeirs Guðjónssonar, Gabriels Alexander Fest og Sigtryggs Leví Kristóferssonar og veitt leyfi til þess að áfrýja dómi Landsréttar 18. febrúar 2022.

Framangreindir voru fyrir Héraðsdómi Vestfjarða sýknaðir af  ákæru um að hafa staðið fyrir, skipulagt og selt útsýnisflug með tveimur þyrlum um friðlandið á Hornströndum og lendingu þar, nánar til tekið í Fljótavík, mánudaginn 13. júlí 2020, og flugstjórar þyrlnanna voru ákærðir fyrir að hafa flogið vélunum og lent þeim í Fljótavík, án þess að hafa leyfi Umhverfisstofnunar til lendingar.

Þeim dómi var snúið við í Landsrétti og ákærðu voru sakfelldir fyrir framangreinda háttsemi.

Hæstiréttur segir í afgreiðslu sinni að þegar svo háttar til skuli að jafnaði orðið við ósk um áfrýjunarleyfi enda verður að telja að úrlausn þess kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi.

Í dómi Landsréttar var rakið að útsýnisflug með þyrlum yfir friðlandinu væri ekki leyfisskylt og kom því ekki til álita að refsa ákærðu fyrir það. Hins vegar taldi Landréttur að Umhverfisstofnun væri heimilt að setja reglur um umferðarrétt manna í friðlandinu, sem hefði verið gert og væri lendingar óheimilar nema með leyfi Umhverfisstofnunar.

Héraðsdómur Vestfjarða sýknaði hins vegar þar sem rétturinn taldi að umrædd heimild Umhverfisstofnunar styddist ekki nægilega við lagastoð.

DEILA