Þuríður Pétursdóttir nýr forstöðumaður Innheimtustofnunar á Ísafirði

Þuríður Pétursdóttir hefur verið ráðin í starf forstöðumanns Innheimtustofnunar sveitarfélaga á Ísafirði. Þuríður er lögfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum. Hún mun á næstunni koma sér fyrir á Ísafirði ásamt eiginmanni sínum, Benedikt Hreini Einarssyni, og þremur sonum þeirra. „Við fjölskyldan erum spennt að flytja til Ísafjarðar og ég hlakka til að leiða uppbyggingu Innheimtustofnunar á Ísafirði,“ segir Þuríður en hún á ættir sínar að rekja til Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Móðir hennar, María Rúriksdóttir, er fædd og uppalin á Ísafirði, foreldrar Maríu eru Guðlaug Björnsdóttir og Rúrik Sumarliðason frá Bolungarvík. Faðir Þuríðar er Pétur Snæbjörnsson, hótelfrömuður úr Mývatnssveit.

Að sögn Þuríðar flytur Innheimtustofnun bráðlega í nýtt húsnæði á Ísafirði, en samningur við sýslumanninn á Vestfjörðum um leigu á skrifstofuhúsnæði hefur verið undirritaður. 

DEILA