Það er gott að búa í Bolungarvík!

Ég er stundum spurður að því af hverju ég búi í Bolungarvík. Oftar en ekki koma upp í hugann fleyg orð sem heimfærð á Víkina fögru væru: – “Það er gott að búa í Bolungarvík”.

Af hverju er gott að búa í Bolungarvík?

Bolungarvík er góður staður fyrir barnafólk og við höfum gott þjónustustig í skólamálum og íþróttum. Byggðin er vel hönnuð þar sem öll þjónusta er í göngufæri og samgöngur innanbæjar eru einfaldar. Það er stutt að komast út í náttúruna frá byggðinni sem gerir útitvist auðvelda og aðgengilega. Bæjarstæðið er eitt það fallegasta á landinu og við höfum svipmikil og falleg fjöll allt um kring.

Atvinnulífið á uppleið

Bolungarvík er bær þar sem atvinnulífið  skapar stóran sess í samfélaginu, lífið við höfnina er stöðugt aðdráttarafl fyrir bæði heimamenn og ferðafólk og er í raun forréttindi að fá að fylgjast með lífæð bæjarins með svo beinum hætti. Framundan er mesta uppbygging á sviði atvinnulífsins sem við höfum séð um áratugaskeið og nýjar atvinnugreinar eru að hasla sér hér völl sem um munar.  Bolungarvík er því svo sannarlega bær tækifæranna og hefur alla burði til að eflast og verða enn betra samfélag sem getur fyrir vikið staðið undir meiri og betri þjónustu á öllum sviðum.

Gerum gott betra

Á þeim tíma sem ég hef setið í bæjarstjórn hefur miklu verið áorkað í Bolungarvík. Ég er stoltur af þeirri uppbyggingu sem hefur orðið og þeim tækifærum sem hafa skapast. 

Það er gott að búa í Bolungarvík en það er ýmislegt sem má betur fara. Verkefni okkar er því að gera enn betur og laga það sem úrskeiðis hefur farið.

Eitt af því sem betur má fara eru umhverfismálin en næstu fjögur árin í bæjarstjórn ætla ég að leggja sérstaka áherslu á að gera bæinn snyrtilegri og fallegri.

Tækifærin eru í Bolungarvík

Bolungarvík er bær tækifæranna og hefur alla burði til að eflast og verða enn betra samfélag.

Sjálfstæðismenn og óháðir bjóða fram sterka forystu til framtíðar. Það er gott að búa í Bolungarvík og við viljum að svo verði áfram.

Settu X við D á kjördag.

Baldur Smári Einarsson

Höfundur skipar 1. sæti framboðslista Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík

DEILA