Sumarháskólinn á Hrafnseyri: metaðsókn

29 manns sóttu um að komast á námskeið sumarháskólans á Hrafnseyri sem haldið verður 29. – 31. júlí í sumar og hafa þeir aldrei verið fleiri. Því miður getur staðurinn aðeins tekið á móti 12 manns og því varð að neita 17 manns um þátttöku. Vikuna á undan koma 10 manns frá Millersvilleháskóla í Pensylvaniu i Bandaríkjunum og dvelja á Hrafnseyri í vikutíma við skriftir.

Í byrjun ágúst kemur svo Margrét Hallmundsdóttir fornleifafræðingur með hóp kennara og nemenda, eins og mörg undanfarin ár, til að starfa við uppgröft, nám og kennslu í fornleifafræði út mánuðinn. Nemendurnir eru frá háskólanum í Bradford á Englandi. Félagarnir Henry Fletcher og Jay Simpson munu kynna bók sína á Hrafnseyri, sem fjallar um gönguleiðir á Vestfjörðum og Sarah Thomas verður með baðstofulestur úr bók sinni um líf sitt á Vestfjörðum. „Það er því mjög ánægjulegt að upplifa hversu vel þekkt Hrafnseyri er orðin sem spennandi námskeiðs- og dvalarstaður. Von okkar er að svo verði áfram í nánunstu framtíð“ segir Valdimar J. Hreiðarson staðarhaldari á Hrafnseyri.

Að síðustu má geta þess að 10. og 11. september er áætlað að efna til ráðstefnu á vegum Hrafnseyrar, Háskóla Íslands og fleiri aðila þar sem kynnt verður „Félags og Samstöðuhagkerfið“ eins og það er stundað á Norðurlöndum og öðrum Evrópulöndum.

Dagskrá 17. júní, sem auglýst verður síðar, byrjar með messu í kapellunni og síðan er hátíðarræða og útskrift nemenda frá Háskólasetri Vestfjarða. Halldór Þorgeisrsson formaður Loftlagsráðs mun flytja hátíðarræðu dagsins og Bríet Vagna Birgisdóttir mun sjá um tónlistarflutning.

Listamaður sumarsins verður Þórir Freyr Höskuldsson og munu verk hans verða til sýnis í burstabænum. Einning hefur listaverkefnið Umhverfing 4 fengið leyfi til að setja upp listsýningu í útihúsunum á Hrafnseyri.

Safn Jóns Sigurðssonar og kaffihúsið í burstabænum er opið kl. 11 – 18 alla daga, 1. júní – 8. september. Enginn aðgangseyrir er inn á safnið.

DEILA