Strandabyggð áfrýjar dómi um miskabætur

Frá Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti einróma á fundi sínum í fyrradag að óska eftir leyfi til áfrýjunar til Landsréttar á dómi Héraðsdóms Vestfjarða í máli sem Þorgeir Pálsson fyrrverandi sveitarstjóri höfðaði á hendur sveitarstjórninni vegna uppsagnar hans. Dómurinn féllst ekki á meginkröfur Þorgeirs um biðlaun en dæmdi honum 500.000 kr í miskabætur.

Sveitarstjórnin vill ekki una því að vera dæmd til greiðslu miskabóta og telur að það sé rangur dómur.

Bókun sveitarstjórnarinnar er eftirfarandi:

“Sveitarstjórn telur, að fenginni ráðgjöf, að dómafordæmi úr Hæstarétti sýni að dómur Héraðsdóms um miskabætur sé rangur. Óeðlilegt sé að dæma miskabætur þegar uppsögnin sjálf sé lögleg og enginn vafi leiki á því að svo sé í þessu tilviki. Uppsögnin var í fullu samræmi við ráðningarsamning og þær aðferðir sem tíðkast í sambærilegum tilvikum. Eins telur sveitarstjórn eðlilegt að verja hagsmuni sveitarfélagsins gagnvart því að þurfa að greiða málskostnað, þegar um sé að ræða tilhæfulausar málssóknir. Mikilvægt sé að fá úr þessu skorið vegna fordæmisgildis dómsins.”

DEILA