Stjórnarformaður OV: Vatnsdalsvirkjun besta lausnin

Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður O.V.

Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður Orkubús Vestfjarða segir að mikið þörf sé á aukinni orku á Vestfjörðum á næstu árum og bendir hann á að fram til ársins 2030 aukist heildaraflþörfin á Vestfjörðum úr 44 MW í 79 MW vegna áforma um orkuskipti, fólksfjölgunar og nýrrar kalkþörungaverksmiðju í Súðavík.

Illugi segir að Vatnsdalsvirkjun sem var áður kölluð Vatnsfjarðarvirkjun og gefur 20-30MW sé besta lausnin umhverfislega og fjárhagslega og að Orkubúið bendi á hana. Ekki sé verið að hrófla við ósnortnu víðerni, þegar liggi Vestfjarðalína um svæðið að Mjólkárvirkjun. Þörfin fyrir aukna raforku sé brýn að sögn Illuga og ef Vatnsdalsvirkjun sé hafnað verði að koma strax með hinn kostinn og segja hver hann er og ekki síður hvernig eigi að fjármagna hann. Illugi segist opinn fyrir því að ræða aðra kosti en leggur áherslu á að það þurfi að vinna hratt. Vatnsdalsvirkjun sé hagkvæm og sala á raforkunni standi undir kostnaðinum. Ný Vesturlína kosti mun hærri fjárhæðir og verði á ábyrgð ríkissjóðs.

„Vestfirðingar eiga rétt á því að næg orka sé til staðar. Það styrkir raforkukerfið að virkjun sé á Vestfjörðum og hún hefur þann kost að vera utan annarra virkjunarsvæða. Með því að raforka er framleidd hér á Vestfjörðum eykst öryggi raforkukerfisins í heild og það er sjónarmið sem þarf að taka með í reikninginn, ásamt umhverfisáhrifum og hagkvæmni.“

DEILA