Orkubú Vestfjarða: hagnaður 386 m.kr.

Hagnaður af rekstri Orkubús Vestfjarða á síðasta ári varð 386 m.kr. eða 12% af rekstrartekjum sem voru 3.174 m.kr. Árinu áður varð hagnaðurinn um 320 m.kr. og tekjurnar nánast þær sömu. Af hagnaði ársins greiðir Okurbúið 57 m.kr. í tekjuskatt.

Laun og tengd gjöld voru 1 milljarður króna og afskriftir 404 m.kr. Stöðugildi eru 60. Bókfærðar eignir í lok ársins voru 13,2 milljarðar króna og skuldir 3,3 milljarðar kr. Eigið fé var því 10 milljarðar króna sem er 75% af heildareignum félagsins.

Framkvæmt var fyrir 700 milljónir króna á árinu. Helstu framkvæmdir á orkusviði voru:

Unnið að forathugun á 30 MW virkjun í Vatnsfirði ásamt minni stýranlegri virkjun. Lokið við rannsóknir á 30°C heitu jarðhitakerfi við Patreksfjörð. Stjórnbúnaður kyndistöðvar á Patreksfirði og í Þverárvirkjun.

Meðal framkvæmda á veitusviði voru: Endurnýjun í lágspennukerfi á Ísafirði. Ný spennistöð tengd, við Núp í Dýrafirði. Nýr aflspennir tengdur í aðveitustöð á Patreksfirði. Plægður jarðstrengur frá Selá í Steingrímsfirði upp á Trékyllisheiði. Klárað að þrífasa í Djúpuvík á Ströndum.

Stjórn Orkubús Vestfjarða skipuðu Illugi Gunnarsson, formaður, Friðbjörg Matthíasdóttir varaformaður, Elsa Kristjánsdóttir ritari, Gísli Jón Kristjánsson og Eiríkur Valdimarsson.

Varamenn: Ragnheiður Hákonardóttir, Steinþór Bjarni Kristjánsson, Magni Hreinn Jónsson, Viktoría Rán Ólafsdóttir og
Eysteinn Jónsson.

Orkubússtjóri er Elías Jónatansson.

DEILA