Opinn ársfundur Orkubús Vestfjarða 2022

Opinn ársfundur Orkubús Vestfjarða verður haldinn á Hótel Ísafirði miðvikudaginn 25. maí kl. 12:00

Á fundinum munu þeir Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður Orkubúsins og Elías Jónatansson orkubússtjóri fara yfir þau mál sem eru í brennidepli hjá fyrirtækinu þessa stundina, helstu framkvæmdir og afkomutölur ársins 2021.  Þá mun Sölvi R. Sólbergsson framkvæmdastjóri Orkusviðs kynna hugmyndir fyrirtækisins um Vatnsfjarðarvirkjun.

Í skýrslu starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum frá því í apríl 2022 er vakin athygli á Vatnsfjarðarvirkjun og að hún gæti verið með uppsett afl á bilinu 20 til 30 MW og er í innan við 20 km fjarlægð frá Mjólkárveitu og Mjólkárvirkjun. Þá segir í skýrslunni:

„Samkvæmt forathugun Orkubús Vestfjarða er um hagkvæman virkjunarkost að ræða, en íslenska ríkið er landeigandi og jafnframt eigandi vatnsréttindanna í Vatnsfirði. Vegalengd tengingar virkjunarinnar við meginflutningskerfið í Mjólká er innan við 20 km og liggur um land í eigu ríkisins og Orkubús Vestfjarða.“

Starfshópurinn leggur til „að umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra skoði hvort fýsilegt sé að lyfta friðlýsingarskilmálum Friðlandsins í Vatnsfirði svo hægt sé að taka Vatnsfjarðarvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun 4“.

Á mynd 12 má sjá áhrif þess á a!hendingaröryggi að Vatnsfjarðarvirkjun tengist inn á tengipunkt Landsnets í Mjólká. Forsendur eru jafnframt þær að búið sé að tvöfalda tengingar í svæðisbundna flutningskerfinu á milli Mjólkár og Keldeyrar (Suðurhringur) og Mjólkár og Breiðadals (Norðurhringur, sem er hluti tillagna starfshópsins.

Fundarmönnum verður gefinn kostur á að koma með fyrirspurnir til framsögumanna.

Ársfundurinn er öllum opinn og verður fundargestum boðið upp á súpu á staðnum.

Áætlað er að fundurinn standi til kl. 13:30

DEILA