Nýt námsbraut: fiskeldistækni

Björn Hembre forstjóri Arnarlax afhendir nemanda viðurkenningu.

Fisktækniskólinn hefur þróað nýja námsbraut til þess að mæta þörfum fiskeldis, nýrrar atvinnugreinar hér á landi. Fisktækninám er tveggja ára grunnnám, 120 einingar á framhaldsskólastigi. Fiskeldistæknin er framhaldsskólabraut á þriðja þrepi, 60 einingar, þ.e. 30 verklegar og 30 bóklegar.

Nám í fiskeldistækni hentar fólki sem þegar er starfandi í greininni, sem sérhæfing í framhaldi af Fisktækninámi, en einnig fólki sem vill undirbúa sig fyrir framtíðastörf við fiskeldi þar sem horft er fram á gríðarlegan vöxt á næstu árum hvort sem er á landi eða í sjókvíaeldi.

Einstaklingar utan skóla eiga þess kost að gangast undir raunfærnimat. Þeir geta nýtt niðurstöður matsins til skipulagningar náms á framhaldsfræðslustigi, til styttingar náms á framhaldsskólastigi eða til staðfestingar á hæfni sinni á vinnumarkaði. Fisktækniskólinn hefur komið að raunfærnimati í haftengdum greinum í samstarfi við fræðslumiðstöðvar um land allt.

Fisktækniskólinn hefur átt í mjög góðu samstarfi við Arnarlax. Skólinn – ásamt Arnarlaxi – er samstarfsaðili í Evrópuverkefninu Bridges, sem snýr að því að samræma nám í fiskeldi á framhaldsskólastigi á milli Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands.

Fisktækniskólinn útskrifaði 16 nemendur í byrjun maí og fór úrskriftin fram á Bíldudal. Sjö nemendur útskrifuðust af fisktæknibraut og níu nemendur útskrifuðust úr fiskeldistækni. Flestir nemendurnir komu frá Arnarlaxi og Artic Fish.

Útskriftarhópurinn.

DEILA