Nýsköpunar- og frumkvöðlabraut í Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Nemendur kynna Bílastæðaapp sem hannað var í nýsköpunar áfanga.

Í Fjölbrautaskóla Snæfellinga er nýsköpunar- og frumkvöðlabraut skemmtileg nýjung sem nemendur hafa möguleika á að velja. Námi á nýsköpunarbraut er ætlað að veita nemendum góða og almenna undirstöðuþekkingu í bóklegum og verklegum greinum með áherslu á nýsköpun og tækni. Í námi sínu tileinka nemendur sér mismunandi nálgun við lausn ýmissa verkefna og temja sér gott verkleg sem og skapandi og listræn vinnubrögð. Brautin hefur sérstöðu miðað við aðrar brautir að því leyti að nemendur geta  valið sér marga áfanga af öðrum brautum. Þessar fjölmörgu valeiningar (52 talsins), gefa nemendum mikið svigrúm til þess að stunda eins fjölbreytt nám og þeim hugnast.

Námið er hannað og skipulagt eftir hugmyndafræði nýsköpunarmenntar. Unnið er eftir viðurkenndum ferlum og innihaldi viðskiptaáætlana. Viðfangsefni nemenda eru unnin í samstarfi og tengingu við atvinnulífið – meðal annars með gestafyrirlesurum og vettvangsheimsóknum í fyrirtæki. Nemendur eru virkjaðir í skapandi vinnubrögðum og vinna með hugmyndir sínar á fjölbreyttan og raunhæfan máta. Að námi loknu hafa þau öðlast færni til þess að hagnýta þau verkfæri sem þeir hafa öðlast til þess að takast á við áskoranir atvinnulífsins. Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt er skapandi nám þar sem nemendur fá frelsi til að vinna með eigin hugmyndir á sama tíma og þau eru þjálfuð í viðurkenndum vinnubrögðum og verkferlum.

Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Jóhann Jón Ísleifsson hófu  samstarf  í janúar 2022 við skipulagningu og uppsetningu námsbrautarinnar og stefnan er að auka samstarfið á næstu misserum.  Jóhann Jón (Jonni) hefur hefur unnið að nýsköpun í gegnum tíðina og starfað með og hjálpað fjölmörgum fyrirtækjum. Jonni kemur inn í nýsköpunarteymið með þeim Gunnlaugi Smárasyni og Lofti Árna Björgvinssyni kennurum við FSN og tengir þannig saman fræðin og þekkingu úr atvinnulífinu.  Gunnlaugur og Loftur komu nýsköpunar- og frumkvöðlabrautinni á laggirnar í FSN síðasta haust og hafa fengið Jonna til liðs við sig til að auka þekkingu og styrkja brautina.


Nemendur kynna Sundapp sem hannað var í nýsköpunar áfanga.

Í lokaverkefnaviku, sem fór fram dagana 9. – 13. maí, fengu nemendur í nýsköpun heimsókn frá „vini“ brautarinnar honum Karli Guðmundssyni forstjóra Florealis. Karl hélt tölu fyrir nemendur og gesti ásamt því að fylgjast með kynningu nemenda sem eru að klára sinn fyrsta áfanga í nýsköpun við FSN.

Karl Guðmundsson forstjóri Florealis.

Florealis er íslenskt lyfjafyrirtæki sem býður upp á úrval skráðra jurtalyfja og lækningavara sem byggja á virkum náttúruefnum. Stutt er við meðhöndlun sjúkdóma á borð við kvíða, svefntruflanir, mígreni og gigt. Allt eru þetta algengir sjúkdómar sem skorta fjölbreyttari meðferðarúrræði. Florealis hefur sett níu vörur á markað á síðustu árum. Vörurnar eru fáanlegar í öllum apótekum á Íslandi og fjölmörgum apótekum í Svíþjóð. Allar vörur frá Florealis eru skráðar og viðurkenndar hjá lyfjayfirvöldum á öllum Norðurlöndunum.

Karl gaf nemendum góð ráð inn í framtíðina:

„Til að skapa eitthvað nýtt þarf að taka áhættu og oftast verða fjölmörg mistök á leiðinni. En mörgum mistökum er hægt að sneiða hjá með góðum undirbúningi og að prófa sig áfram og draga þannig úr áhættu. Það er frábært fyrir ungt fólk með áhuga á nýsköpun að fá raunveruleg verkefni og tilsögn í frumkvöðlafræðum. Það eru tækifæri allt í kringum okkur og með aukinni þjálfun er hægt að koma auga á tækifærin, undirbúa hvernig á að nýta þau og átta sig á hvar áhættan liggur.“

Það er mikilvægt fyrir Fjölbrautaskóla Snæfellinga að eiga í góðu samstarfi við atvinnulífið í nærumhverfinu og mun skólinn óska eftir samstarfi við fyrirtæki á Snæfellsnesi þegar fram líða stundir og einnig er mikilvægt að tengjast Svæðisgarðinum okkar og vonumst við eftir jákvæðum viðbrögðum þaðan, það má taka undir með Karli að tækifærin eru út um allt. Áfram mun skólinn víkka út sjóndeildarhringinn og starfa með fyrirtækjum eins og Florealis, Bioeffect og Controlant auk þess að fara í heimsókn í stórfyrirtækið Marel.


Fjölbrautaskóli Snæfellinga var fyrsti framhaldsskólinn til að bjóða upp á Rafíþrótta áfanga.

Hugmyndir nemenda voru áhugaverðar og það verður mjög spennandi að sjá og styðja þá í áframhaldandi vinnu og hver veit nema að þarna hafi orðið til sproti að nýju fyrirtæki sem skapar störf og verðmæti hér í okkar nærumhverfi en það er einmitt eitt af markmiðum með brautinni.  Að kenna viðurkenndar aðferðir við að fá hugmyndir og þróa þær áfram svo þær geti orðið grunnur að árangursríku tækifæri.

Nám við Fjölbrautaskóla Snæfellinga er leiðsagnarnám sem gengur út á að nemendur fá leiðsögn eftir hvert verkefni og vinna jafnt og þétt yfir önnina. Skólinn býður upp á alla áfanga í stað- og fjarnámi. Skólinn hefur gott orðspor á sér fyrir að vera persónulegur og að nemendur hafi gott aðgengi að kennurum.

Gunnlaugur Smárason
Kennari
Fjölbrautaskóla Snæfellinga

DEILA