Nemendur Lýðskólans og íbúar á Flateyri taka saman fyrstu skóflustunguna að nýjum nemendagörðum

Íbúar á Flateyri og nemendur Lýðskólans á Flateyri koma saman og  taka sameiginlega fyrstu skóflustunguna að nýbyggingu Nemendagarða Lýðskólans, laugardaginn 7. maí kl. 15. Húsið mun rísa við Hafnarstræti 29 og verður tekið í notkun um næstu áramót.

Þetta er fyrsta íbúðarhúsið sem byggt er í þorpinu í 25 ár. Um er að ræða fjórtán stúdíóíbúðir fyrir nemendur skólans. Yrki artiktektar hönnuðu húsið með það að markmiði að nýbyggingin félli vel að núverandi götumynd Hafnarstrætis og yrði hluti af ásýnd þorpsins. Húsið er reist úr steyptum einingum frá Steypustöðinni og einangrað og klætt að utan með koparlitaðri álbáru.

Þrefalt fleiri hafa að jafnaði sótt um skólavist við Lýðskólann en hægt hefur verið að taka á móti og hefur skortur á húsnæði staðið í vegi fyrir fjölgun nemenda. Markmiðið er að 40 nemendur geti stundað nám við skólann en núverandi nemendafjöldi er um 30.

Skólinn útskrifar fjórða árgang skólans í Samkomuhúsinu á Flateyri þennan sama dag kl. 14 og að athöfn lokinni ganga starfsfólk, nemendur og gestir út að Hafnarstræti 29 þar sem þeir og aðrir íbúar á Flateyri taka sameiginlega fyrstu skóflustunguna að fyrsta nýja íbúðarhúsinu á Flateyri í aldarfjórðung.

DEILA