Laxasláturhús á Patreksfirði

Frá Patreksfirði, Vatneyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á dagskrá bæjarstjórnarfundar í Vesturbyggð seinna í dag eru áform Arnarlax um byggingu sláturhúss á Patreksfirði.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta verður borin upp til samþykktar viljayfirlýsing Vesturbyggðar og Arnarlax um byggingu laxasláturhús á Patreksfirði. Mun því vera ætlaður staður á Vatneyrinni.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri og Björn Hembre forstjóri Arnarlax hafa ekki svarað fyrirspurnum Bæjarins besta um innihald yfirlýsingarinnar.

Vesturbyggð höfðaði dómsmál á hendur Arnarlax vegna deilna um lögmæti hækkunar á aflagjaldi sem greitt er af sláturfiski. Aflagjaldið var hækkað úr 0,6% upp í 0,7% af verðmæti eldislaxins. Arnarlax neitaði að greiða hækkunina og stefndi þá sveitarfélagið fyrirtækinu fyrir dómstóla.

Í lok apríl var staðfest að viðræður eru á milli aðila um lausn ágreiningsins og var málflutningi fyrir Héraðsdómi Vestfjarða frestað. Bæjarins besta telur að í viljayfirlýsingunni sé tekið á þessu ágreiningsefni en ekki hefur fengist staðfest hvernig. Það gæti verið samkomulag um að fresta deilunni eða samkomulag um lausn á henni.

Í skýringum með ársreikningi sveitarfélagsins fyrir 2021, sem verður afgreiddur í bæjarstjórn í dag er vikið að þessu deilumáli og þar segir:

„Sveitarfélagið stefndi Arnarlaxi á árinu 2020 vegna vangoldinna aflagjalda. Arnarlax telur innheimtu aflagjalda skv.
gjaldskrá hafnasjóðs ólögmæta og hefur því greitt aflagjöld skv. eldri gjaldskrá. Málið bíður fyrirtöku hjá
Héraðsdómi Vestfjarða.

Samhliða því hafa aðilar átt í viðræðum um að ljúka málinu með sátt og utan dómstóla.
Niðurstaða í málinu kann að hafa áhrif á útreikning aflagjalda sem innheimt hafa verið af öðrum aðilum.“

Væntanlega verður leynd aflétt af yfirlýsingunni eftir bæjarstjórnarfundinn, sem hefst kl 17 í dag og þá skýrist málið nánar.

DEILA