Kerecis byggir á Ísafirði

Skv. fundargerð bæjarráðs Ísafjarðarbæjar sem birt var í gær, vinnur Ísafjarðarbær að gerð samkomulags við Kerecis um uppbyggingu í bænum þar sem stefnt er að því að byggja 6400 m2 hús á Suðurtanga í tveimur áföngum. Aðstaða Kerecis er nú að þremur stöðum í bænum; Íshúsfélagshúsinu, Norðurtangahúsinu og í Neista á alls um 2000 m2 og myndu hún þá sameinast á einum stað að Æðartanga.

Bæjarins Besta hafði samband við Guðmund Fertram stofnanda og forstjóra Kerecis sem sagði: „Kerecis sér Ísafjarðarbæ sem heimabæ sinn og er hjarta fyrirtækisins í bænum. Kerecis hefur í dag 50 starfsmenn á Ísafirði þar sem lögheimili okkar er og gerum við ráð fyrir að halda áfram að vaxa ört á Ísafirði að því gefnu að samstarf við bæjinn verði gott að umhverfi til rekstrar áfram jákvætt í bænum“.

Fram kom að áætlað er að byggingin verði að mestu leyti einlyftur salur með um sjö metra lofthæð þar sem í verður komið fyrir sjálfstæðum vinnsluklefum þar sem fram munu fara mismunandi vinnsluskref í lofthreinsuðu umhverfi. Í enda byggingarinnar verða skrifstofur á tveimur hæðum. Mögulegt er að jarðvinna hefjist í sumar ef gatnagerð og leyfisvinna bæjarins verði lokið í tíma. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir taki þrjú ár þannig að vinnsla getir hafist árið 2025 eða 2026 í húsinu.


Skv. heimildum Bæjarins Besta voru tekjur Kerecis um 5 milljarðar á síðasta ári og er gert ráð fyrir að tekjur Kerecis verði 10 milljarðar kr á árinu 2022 og er gert ráð fyrir smávægilegum hagnaði eða tapi á árinu.

DEILA