Jæja, jæja …

Hvað segist, gott fólk?

          Eigum við að halda áfram að ræða um ketti? Tja, hvers vegna ekki? Alla vega er ekki vanþörf á, svo mikið er víst.

          Fyrri grein mín fór víða og vakti umtal, enda brennur þetta á mörgum landanum. Sumir hafa eflaust fyrst við, eins og gengur, sannleikanum verður jú hver sárreiður, en meirihlutinn tók henni fagnandi. Það skynjaði ég á viðbrögðum, jafnt símhringingum sem öðru.

          Talskona Fuglaverndar var annars á Rás 1 á dögunum og ræddi við umsjónarmenn ónefnds þáttar um samband fugla og katta. Og hundar komu reyndar aðeins við sögu. Þetta var stórfurðulegt viðtal, sem ég ætla ekki að fara út í nánar, að öðru leyti en því að mig langar að beina sjónum að því sem var sagt um hvor tegundin væri hættulegri, hundarnir eða kettirnir. Að sögn talskonunnar voru það hundarnir, af því m.a. að þeir eru komnir af úlfum og eru hópdýr og því til alls líklegir. Hinir ekki. Svo eru þeir fyrrnefndu stærri líka og sterkari.

          Hér skulum við aðeins doka við, því í þessu sambandi á málið ekki endilega að snúast um afl, sentimetra og þyngd.

          Á Vísindavefnum segir m.a. í svari við spurningunni „Geta kettir verið hættulegir?“:

          Vissulega getur stafað hætta af köttum, bæði bein og óbein. Villtir kettir eiga það til að ráðast á fólk ef þeim er ógnað, til dæmis ef börn króa þá af. Slíkt er þó sjálfsagt fátítt hér á landi. Einnig eru fjölmargir með ofnæmi fyrir köttum, jafnvel bráðaofnæmi sem getur í einhverjum tilvikum reynst lífshættulegt.

          Einnig er hætta á því að sníkjudýr úr köttum berist í menn. Sníkjudýrið bogfrymill (Toxoplasma gondii) er algengur innsníkill í köttum. Bogfrymill getur valdið fósturskaða og jafnvel fósturdauða ef hann berst í vanfærar konur. Sníkjudýrið berst úr kettinum með saur og það er ekki ráðlegt að vanfærar konur hreinsi saur úr kattarkassanum …

          Rannsóknir hafa sýnt að miðtaugakerfið í músum og rottum, sem eru verulega sýktar af umræddu sníkjudýri, tekur einhverjum breytingum. Breytingarnar koma fram í atferli dýranna, til dæmis verða þau ekki eins tortryggin gagnvart framandi mat og þau eru óhræddari við opin svæði. Þetta eykur líkurnar á því að þau lendi í kjaftinum á rándýri sem í borgarumhverfi nútímans eru yfirleitt kettir. Þannig komast sníkjudýrin í tengsl við önnur sníkjudýr sömu tegundar og geta þannig æxlast. Það eykur erfðablöndun og minnkar hættu á innræktun sníkjudýranna.

          Læknar hafa lengi rannsakað áhrif bogfrymils á menn og vísbendingar eru um að breytingar verði á heilastarfsemi manna sem sýkjast. Til dæmis virðast sýktir einstaklingar finna fyrir óöryggi, viðbragðsflýtir þeirra verður minni og jafnvel ber á því að fólk verður íhaldssamara og tregara til að gera eða framkvæma nýja hluti …

          Hér ber að geta þess, að umrætt svar var gefið 24. september 2008, og í því sem ekki var birt hér er dregið nokkuð úr alvarleika málsins hvað Ísland varðar. En það hefur margt breyst síðan þá. Eitt er það, að erlendar rannsóknir eru sífellt að leiða í ljós enn alvarlegri áhrif þessa einfrumungs á umhverfið en þarna var getið. Á alls kyns dýr. Ástæðan fyrir því að kettir moka yfir það sem frá þeim kemur er t.d. ekki sú, að þeir séu einstakir snyrtipinnar, eins og hingað til hefur verið talið, heldur er þetta leið sníkjudýrsins til að lengja líftíma eggjanna, því hitinn geymist þá lengur saurnum og dregur úr þornun hans. Smart. Dýr af kattaætt eru einu hýslarnir þar sem bogfrymill getur klárað æxlunarhringinn.

          Í sumum löndum er konum ráðlögð fóstureyðing ef bogfrymill finnst í blóðinu, segir í grein í Pressunni 2. febrúar 1989, og að auki að þeir kettir sem lifi eingöngu á niðursoðnum kattamat eigi að vera lausir við skaðvaldinn. Það eitt ætti að vera ástæða til að halda þeim inni, alltaf, enda er engin leið fyrir eigendur þeirra að vita hvað þeir eru að gera úti við, séu þeir í lausagöngu, jafnvel drepandi nagdýr og smáfugla. Það segir sig sjálft.

          Árið 1996 var leitað að sníkjudýrum í 411 sandsýnum úr 32 sandkössum hér á landi. Hunda- og kattaskítur fannst í 21 kassa, eða 66% þeirra. Þrjár tegundir sníkjudýra, hunda- og kattaspóluormar auk bogfrymils fundust í sandkössum á leiksvæðum barna í Reykjavík og Kópavogi.

          Í DV 5. ágúst 2011 segir, að rannsóknir bendi til að þessi sníkill orsaki heilakrabba.

          Síðan hefur bæst á listann geðklofi og fleira.

          Ef mýs eða rottur sýkjast, fara þær að laðast að kattahlandslykt og verða jafnframt kærulausari, eða áhættusæknari, sem gerir rándýrinu auðveldara með að ná þeim. Eins er með fugla. Þetta eru millihýslar. Þannig lokast hringurinn.

          Bogfrymill hefur líka fundist í búpeningi hér á landi og er talinn hafa komist þangað upphaflega úr skít villikatta, sem hafa komið sér fyrir í og við hlöður. Hann getur borist í menn úr kjöti sem ekki hefur verið eldað nóg. Og líka úr grænmeti, ávöxtum og vatni sem mengað er af eggjum hans.

          Geðslegt?

          Árið 2014 bentu mælingar til þess, að um 30% katta hérlendis hefðu myndað mótefni gegn bogfrymli og að um 10% fólks hafi sýkst af bogfrymilssótt og myndað þannig mótefni.

          Og hið nýjasta er svo það, að vísindamenn telja að mögulega þurfi að fara taka upp reglulegar mælingar gegn bogfrymli hjá starfsstéttum eins og flugmönnum, flugumferðarstjórum og atvinnubílstjórum. Og hvers vegna skyldi það nú vera?

          Hmmm.

          Á heimasíðu Matvælastofnunar eru taldar upp „mikilvægustu leiðir til að koma í veg fyrir smit“. Þær eru eftirtaldar:

  • Tryggja að allt kjöt nái a.m.k. 65 gráðu hita við eldun.
  • Þvo hendur og áhöld sem komið hafa í snertingu við hrátt kjöt og gæta þess að það komist ekki í snertingu við önnur matvæli.
  • Þvo allt grænmeti og ávexti fyrir neyslu.
  • Nota hanska við garðvinnu og við að hreinsa kattasand.

          Athygli vekur að áhrifamesta leiðin er ekki nefnd einu einasta orði, sem er auðvitað sú að banna algjörlega lausagöngu katta.

          Ég hvet blaða- og fréttamenn til að kafa nú djúpt í þessa, að því er virðist forboðnu eða a.m.k. hér á landi földu laug, eða öllu heldur fúla pytt og sýna lesendum og/eða áhorfendum að því búnu hvað upp úr honum kemur. Því miður held ég að það verði enn svartara en hér hefur verið lýst.

          Lifið heil.

Magnús Ólafs Hansson

Höfundur er búsettur á Akranesi

DEILA