Íþróttastarf í Ísafjarðarbæ – kröfur nútímans

Ég er fædd og uppalin í Hnífsdal og bý þar í dag ásamt eiginmanni mínum og börnum. Hér höfum við skotið niður föstum rótum og frá fyrsta degi hef ég ekki getað séð fyrir mér að búa á öðrum stað en í Ísafjarðarbæ, í þessu öfluga samfélagi sem okkur líður svo vel í.

Þátttaka í félagsstarfi mikilvæg

Þeir sem þekkja mig best geta vitnað um það að félagsstörf eru fyrir mér órjúfanlegur þáttur af tilverunni. Tvítug gekk ég í kvenfélag og hef síðan þá tekið mikinn þátt í ýmsu félagsstarfi. Ég hef verið formaður hverfisráðs Hnífsdals, formaður sambands vestfirskra kvenna og er í dag formaður kvenfélagsins Hvatar í Hnífsdal. Einnig hef ég tekið virkan þátt í íþróttastarfi barnanna minna og tel það mjög mikilvægan þátt í íþróttalegu uppeldi. Að taka þátt í félagsstörfum hefur alltaf gefið mér gríðarlega margt og lá því beinast við að vinda mér í virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins, þar sem ég get unnið í góðri samvinnu þvert á flokka að uppbyggingu í okkar bæjarfélagi.

Bætt aðstaða til íþróttaiðkunar

Ég hóf störf sem framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfirðinga í ágúst 2021 og hef ég eins og gefur að skilja í gegnum mitt starf, mikinn áhuga á því að vinna að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu. Ég, eins og annað íþróttafólk í bæjarfélaginu, vil að sjálfsögðu sjá að hér rísi fjölnota íþróttahús og að gervigras verði sett á aðalvöllinn. Staðreyndin er sú að börnin okkar hér í Ísafjarðarbæ æfa við töluvert lakari aðstæður en þau börn sem þau mæta í kappleikjum. Þetta á ekki eingöngu við fótboltakrakka. Þegar við tökum nýtt hús í notkun mun losna um töluvert pláss í íþróttahúsinu á Torfnesi og verður því rýmra um allar íþróttagreinar sem æfa á Torfnesi. Þá verður hægt að losa um æfingaþunga á helgum. Það er helst vegna heimaleikja liða sem æfingar falla niður hvað eftir annað og missa okkar börn því úr mikið af skipulögðum æfingum.

Horfum til framtíðar

Við sjáum fram á fjölgun íbúa í sveitafélaginu og viljum við í Sjálfstæðisflokknum öfluga innviði íþrótta- og tómstundastarfa ásamt möguleikum fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki að byggja í sveitarfélaginu og skiptir þar máli að vandað sé til verka svo við getum verið enn hreyknari af okkar einstaka bæjarfélagi.

Dagný Finnbjörnsdóttir

höfundur er framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfirðinga og skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ fyrir komandi sveitastjórnarkosningar.

DEILA