Ísafjarðarhöfn tekur 200 m.kr. lán

Viking Sky í Sundahöfn í fyrrasumar.

Lánasjóður sveitarfélaga hefur samþykkt að veita Hafnarsjóði Ísafjarðarbæjar lán að fjárhæð 200 milljónir króna vegna uppbyggingar hafnar að Sundabakka í Skutulsfirði.

Lánið er tekið til að fjármagna uppbyggingu á höfn að Sundabakka í Skutulsfirði, en um 670 milljón króna framkvæmd er að ræða. Styrkur ríkisins er um 60% eða um 400 m.kr. Hlutur hafnarinnar er því 270 m.kr. og er lánið tekið til þess að mæta þeim hluta. Lánið er til 17 ára og er með 1% föstum vöxtum.

Lánveiting Lánasjóðsins er með því skilyrði að bæjarsjóður veiti einfalda ábyrgð og fær Lánasjóður sveitarfélaga veð í tekjum bæjarsjóðs til tryggingar þeirri ábyrgð.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar afgreiðir lántökuna á fundi sínum seinna í dag.

DEILA