Í skólanum er skemmtilegt að vera

Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi.

Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera, var sungið fyrir nokkuð mörgum árum. Er það ekki það sem við viljum enn í dag? Að börnin okkar upplifi skólaárin sem skemmtilegan tíma, sérstaklega ef við höfum í huga að fyrstu átján árin í lífi hvers barns eru að mestu skólaár. Hvernig getur sveitarfélagið okkar búið til umgjörð um gott skólastarf? 

Við getum tryggt að öll börn fái jöfn tækifæri til að menntast og þroskast. Við getum virkjað snemmtæka íhlutun sem stefnu í okkar skólastarfi svo hún verði meira falleg orð á blaði. Við getum tryggt að kennarar og aðrir starfsmenn skólanna okkar fái stuðning og fræðslu til að koma í veg fyrir kulnun og vanlíðan. Við getum tryggt að skólahúsnæði standist nútímakröfur um hollustuhætti og aðgengi. Við getum tryggt jafnt aðgengi til náms með því að leita nýrra leiða við kennslu, þar sem nýta má tækni og lausnamiðaða nálgun. 

Hvernig ætlum við Í Í-listanum að gera það? Jú, með því að forgangsraða í mannauði og menntun. Við ætlum ekki að skerða þjónustu skóla, heldur auka hana. Við lögðum fram tillögu á Fjórðungsþingi Vestfirðinga um samvinnu og samstarf milli sveitarfélaga á Vestfjörðum í skóla og fræðslumálum. Slíkt samstarf byggir á trausti hinna sveitarfélaganna á getu og samstarfsvilja Ísafjarðarbæjar. 

  • Við ætlum að tryggja stöðuga sérfræðiþjónustu fyrir börn og kennara, þannig að börnin okkar þurfi ekki að bíða í margar vikur eftir fyrstu hjálp.  
  • Við ætlum að móta framtíðarsýn með fagfólki um fjölgun leik- og grunnskólarýma í sveitarfélaginu og hvernig við tryggjum skólahald í öllum byggðakjörnum. 
  • Með því að líta á skólasamfélagið okkar sem hluta af heiminum öllum og vera óhrædd við að leita eftir samstarfi og samvinnu við þá sem geta styrkt okkur í að búa til öflugt og mannbætandi skólaumhverfi þar sem jöfnuður, menntun og hamingja er lykilstefið. 

Við í Í-listanum ætlum að fjárfesta í menntun. Við getum byrjað strax eftir kosningar með reynslumiklum bæjarstjóra sem er tilbúin að leiða verkefnið í gegnum stjórnsýsluna með okkar öfluga fagfólki þar sem börnin verða í forgrunni. Settu X við Í á kjördag.

Nanný Arna Guðmundsdóttir 2. sæti Í-listans

DEILA