Í-listinn – til þjónustu reiðubúinn

Það líður að kosningum, þá þarf fólk að spyrja sig hvað það vill sjá hjá Ísafjarðarbæ næstu árin. Í sveitarfélaginu eru nokkur framboð að bjóða fram frambærilega lista með fólki sem vill leggja sig fram fyrir Ísafjarðarbæ. Málið snýst fyrst og fremst um áherslur og fólk sem þú treystir til að leiða þá uppbyggingu sem í vændum er. Vilt þú hafa sömu stjórnarhætti áfram eða viltu breytingar? Mitt persónulega álit er að við þurfum betri stjórnarhætti. Til dæmist það einfalda atriði að allir bæjarbúar og fyrirtæki eiga rétt á að erindum sínum sé svarað á rökstuddan hátt innan tilskilins tíma. Við þurfum að hvetja fólk og fyrirtæki til að byggja og starfa í sveitarfélaginu, ekki rífa það niður. Við eigum að gera allt sem sveitarfélagið getur mögulega gert til að hvetja til uppbyggingar og koma lagi á skipulagsmálin.

Við þurfum að berjast fyrir betri samgöngum eins og t.d. Súðavikurgöng. Bæjarfélagið á að beita öllum ráðum til að koma þeim í gegn, því þetta mál snýst um öryggi íbúa. Við þurfum betri tengingu og samstarf við Suðurfirðina sem og önnur sveitarfélög á Vestfjörðum. Kjarnarnir sem mynda Ísafjarðarbæ hafa misst mikið síðan sameiningin var og staðbundin þjónusta hefur minnkað. Uppbygging á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri skiptir okkur öll máli. Bæjaryfirvöld þurfa að huga að smærri kjörnunum eins og Ísafirði.

Bæjarfulltrúar verða að muna að þeir eru þarna vegna þess að fólkið kaus það til að þjónusta bæjarbúa.   Í–listinn er tilbúin að þjónusta bæjarbúa og hefur brennandi áhuga á að gera Ísafjarðarbæ enn betri stað til að búa á. Setjum X við Í á kjördag.

Valur Richter, skipar 10. sæti Í-listans

DEILA