Háskólinn á Hólum í ferð um Vestfirði

Fiskeldisnemar á fóðurpramma Arctic fish á Patreksfirði

Nemendur í diplomanámi í fiskeldi við Háskólann á Hólum voru á faraldsfæti á dögunum og kynntu sér fiskeldið á sunnanverðum Vestfjörðum.   

Nám í fiskeldi er byggt upp af tíu námskeiðum sem kennd eru í fjarnámi, hvert á fætur öðru, yfir tvær annir auk 12 vikna verknáms á þriðju önn.  Í hverju námskeiði er gert ráð fyrir 3-4 daga staðbundinni lotu sem að jafnaði fer fram í Verinu á Sauðárkróki. Þar hittast nemendur og kennarar, efla tengsl og takast á við viðfangsefni sem betur fer á að kljást við á staðnum en gegnum veraldarvefinn. 

Að þessu sinni fór þó staðlotan ekki fram heima í héraði heldur vestur á fjörðum. Þrettán manna hópur á vegum Háskólans á Hólum, nemendur í námskeiðinu Eldisbúnaði ásamt starfsfólki skólans, hafði bækistöð á Patreksfirði um nokkurra daga skeið á meðan ýmsum verkefnum var sinnt í nálægum byggðum. 

Lengst dvaldi hópurinn í  seiðaeldisstöð Arctic Fish í Norðurbotni í Tálknafirði þar sem þau spreyttu sig á vatnsgæðamælingum, seltuþolsprófum og mælingum á blóðplasma, um leið og tækifæri gafst til að kynnast náið starfssemi stöðvarinnar.  Farið var út í kvíar og fóðurpramma fyrirtækisins á Patreksfirði.  Bækistöðvar Arnarlax á Bíldudal voru heimsóttar þar sem starfsemi fyrirtækisins var kynnt.  Seiðaeldisstöð Arnarlax á Gileyri var skoðuð og einnig sláturhúsið á Bíldudal. Að lokum var staldrað við í bleikjueldinu hjáTungusilungi í Tálknafirði.

Að sögn Ólafs Sigurgeirssonar lektors gefst með þessum heimsóknum ákaflega kærkomið tækifæri til að komast nær viðfangsefninu og sjá og skilja hvernig fjölbreytt starfsemi tengd fiskeldi gengur fyrir sig.  Efni námskeiðsins sem staðarlotan heyrir undir er að talsverðu leyti um endurnýtingu á vatni í fiskeldi og rekstur endurnýtingakerfa.  Seiðaeldisstöðin í Norðurbotni er fullkomnasta endurnýtingarstöðin á Íslandi og hentar ákaflega vel til að fræðast um slík kerfi.  Þar er vítt til veggja og góðar aðstæður til að vinna námstengd verkefni í slíkri heimsókn. Við tekur svo að þróa slíkar verklegar lotur enn frekar í samstarfi við iðnaðinn.

Matreiðslumaður og veiðikló í fiskeldisnámi – glaðhlakkalegur með fenginn.

Háskólinn á Hólum er, ásamt fleiri skólastofnunum og fiskeldisfyrirtækjum á Íslandi, aðili að Evrópusamstarfsverkefninu Bridges.   Nafn verkefnisins stendur fyrir Blue Region Initiative for Developing Growth, Employability and Skills in The Farming of fin-fish og er verkefnið styrkt af Erasmus, menntaáætlun Evrópusambandsins.

Markmið verkefnisin er, í stuttu máli, að stuðla að því að menntastofnanir á sviði fiskeldis muni gegna lykilhlutverki sem nokkurs konar miðstöðvar þekkingar, færni, nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi á heimsmælikvarða.

Styrkurinn sem fékkst til verkefnisins er sá stærsti sem Erasmus hefur veitt til þessa skólastigs á norðurlöndunum og meðal stærstu styrkja sem veittir hafa verið innan þess hluta menntaáætlunarinnar sem kallast Centers of Vocational Excellence, og mætti útleggja á íslensku sem Miðstöðvar framúrskarandi starfsnáms.  Verkefnið er til fjögurra ára, hófst í nóvember árið 2020 og lýkur árið 2024.

Eitt af meginmarkmiðum verkefnisins er að stuðla að auknum tengslum starfsmenntunar við iðnaðinn, meðal annars með kortlagningu þekkingar, hæfni og þarfa, sem  aftur stuðlar að auknum gæðum og skilvirkni starfsnámsins.  Í því samhengi er unnið að endurskoðun og frekari uppbyggingu verknáms við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum.  Náms- og skoðunarferð nemenda deildarinnar var liður í þeirri uppbyggingu og mæltist vel fyrir af nemendum, starfsfólki og gestgjöfum.  Fyrirtækin á Vestfjörðum fá kærar þakkir fyrir móttökurnar og hjálpsemina. 

Fiskeldi er í gífurlegum vexti hér á landi þessi misserin og þörf fyrir fólk með þekkingu á sviðinu hefur því aldrei verið meiri. Tækniþróunin er hröð og kröfur um gæði og sjálfbærni í matvælaframleiðslu eykst í takt við tíðarandann.  Háskólinn á Hólum leggur metnað sinn í að fylgja þessari þróun. 

Við mat á seltuþoli er dregið blóð úr seiðum.

Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum er alþjóðleg miðstöð rannsókna og kennslu í sjávar- og vatnalíffræði, fiskeldi og fiskalíffræði. Deildin stuðlar að faglegri uppbyggingu fiskeldis í anda sjálfbærrar þróunar og kemur víða að þróunarstarfi á sínum fræðasviðum.

Deildin á í formlegu samstarfi um kennslu og rannsóknir við fjölda háskóla og rannsóknastofnana bæði hérlendis og erlendis. Nemendur taka virkan þátt í fjölbreyttum rannsóknar- og þróunarverkefnum sem sérfræðingar deildarinnar vinna að og fá þannig að kynnast af eigin raun nýjungum og verklagi.
Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum býður upp á fjölbreytt nám tengt fiskeldi, nýtingu auðlinda og sjávar- og vatnalíffræði. Auk þess leiðbeina sérfræðingar deildarinnar fjölmörgum doktorsnemum, sem skráðir eru við aðra háskóla, og leiðbeina fjölda erlendra nemenda í tímabundnu rannsóknaverknámi. Í námi og kennslu við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild er lögð áhersla á mikil og góð tengsl við atvinnulífið, sem og aðrar mennta- og fræðslustofnanir hérlendis og erlendis, og jafnframt á öfluga tengingu náms og rannsókna.  Umsóknarfrestur um nám við Háskólann á Hólum er til 5. júní. 

Ástríður Einarsdóttir
Verkefnastjóri við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum

DEILA